Breytt frunsuveira gegn krabbameini gefur góð fyrirheit

Mynd með færslu
 Mynd: national cancer institute/Unspla
Fyrstu tilraunir með nýja tegund krabbameinslyfs virðast gefa góða raun. Æxlið er hvergi sjáanlegt lengur hjá einum þátttakenda í rannsókninni, og hjá mörgum öðrum minnkaði æxlið.

Lyfið er búið til úr frunsuveiru sem búið er að veikja og breyta þannig að það ráðist á og drepi krabbameinsfrumur. Þó fyrstu tilraunir gefi góð fyrirheit þarf talsvert stærri og fjölmennari rannsóknir áður en hægt er að segja fyllilega til um hversu mikill ávinningurinn er. BBC hefur eftir sérfræðingum í krabbameinsrannsóknum að lyfið eigi að líkindum eftir að veita fólki með krabbamein á háu stigi meiri lífslíkur.

Æxlið horfið eftir líknandi meðferð

Krzysztof Wojkowski, smiður á fertugsaldri frá Lundúnum, er einn þátttakenda í rannsókninni, sem unnin er af bresku krabbameinsrannsóknarstofnuninni. Hann greindist með krabbamein í munnvatnskirtlum árið 2017. Þrátt fyrir skurðaðgerð og fleiri meðferðir hélt æxlið áfram að stækka, og fékk hann þær fréttir frá læknum að hann fengi líknandi meðferð. Hann fékk að taka þátt í rannsókninni, þar sem nýja lyfinu var sprautað í hann aðra hverja viku, í fimm skipti. Hann var svo heppinn að æxlið hvarf, og hefur hvergi látið á sér kræla síðustu tvö ár, hefur BBC eftir honum.

Lyfinu er sprautað beint í æxlið, og ræðst á það á tvenna vegu. Annars vegar með því að ráðast á krabbameinsfrumur og láta þær springa, og hins vegar með því að virkja ónæmiskerfið. Tæplega fjörutíu sjúklingar tóku þátt í tilrauninni. Níu þeirra fengu eingöngu nýja lyfið, en hinir þrjátíu fengu það samhliða öðru krabbameinslyfi. 

Æxlið minnkaði hjá þremur af níu þátttakendum sem eingöngu fengu nýja lyfið. Þeirra á meðal var Wojkowski. Sjö af þeim þrjátíu sem fengu lyfið samhliða öðru virtust einnig njóta góðs af því. Aukaverkanir, á borð við þreytu, voru tiltölulega litlar, að því er fram kom í kynningu á rannsókninni á ráðstefnu í París í vikunni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV