Blóð er sögu ríkara

Mynd: RÚV / RÚV

Blóð er sögu ríkara

23.09.2022 - 13:00

Höfundar

Blóðferlagreiningar geta skipt höfuðmáli við rannsókn á vettvangi glæpa. Með þeim er hægt er hrekja eða styðja vitnisburði og sýna fram á hvort andlát bar að með saknæmum hætti. „Það getur sagt okkur hvað gerðist, hvernig það gerðist og hvað gerðist ekki,“ segir Ragnar Jónsson blóðferlasérfræðingur um blóð á vettvangi.

Ragnar Jónsson er blóðferlasérfræðingur hjá tæknideild lögreglunnar. Nýverið birtist grein eftir hann og Björgvin Sigurðsson, sérfræðing í DNA-greiningu, í virtri bókaröð um réttarmeinafræði. Þar fara þeir yfir íslenskt sakamál þar sem rannsóknir á blóði og DNA skiptu sköpum fyrir lausn málsins.

Ragnar lýsir blóðferlagreiningu sem lestri á dreifingu blóðs á vettvangi þar sem grunur leikur á að eitthvað saknæmt hafi gerst. Ragnar segir að blóð segi sögu, til dæmis um áhöldin sem eru notuð, hreyfingar, kraft og jafnvel atburðarás.  

„Þegar við erum farin að tala um krafta, áhöld, hvort sem það eru verkfæri, hafnaboltakylfur eða eggvopn, þá fer blóðið sjálft að breytast. Þú ert kominn með kraft og hreyfingu og þá myndast þessar svokölluðu slettur. Ef við sjáum slettur á vettvangi er líklegt að einhver átök hafi átt sér stað,“ segir hann. „Síðan höfum við ákveðna skynsemi af þessu líka, hvað er vettvangurinn að segja okkur út frá blóðinu. Því það getur sagt okkur hvað gerðist, hvernig það gerðist og hvað gerðist ekki.“ 

Gátu hrakið vitnisburð með fræðunum 

Ragnar segir að blóðferlagreining og önnur meinatæknivinna skipti sífellt meira máli í lögreglurannsóknum af öllum toga. „Þetta kallar á að við séum sífellt í endurmenntun og að viðhalda þekkingu okkar, að við séum með bestu mögulegu tæki til að vinna vinnuna okkar og eigum í samstarfi við fagaðila og fagstofnanir.“ 

Málið sem Ragnar og Björgvin skrifuðu um tengist manndrápi við Hringbraut í Reykjavík 2007. Manni var gefið að sök að hafa veist að öðrum og lamið hann í höfuðið með slökkvitæki svo hann hlaut bana af. Ragnar segir að blóð á vettvangi hafi gefið sterkar vísbendingar um eðli árásarinnar og hver gerði hana. Sá ákærði neitaði ávallt sök en var að lokum dæmdur fyrir verknaðinn. Dómurinn byggðist að langmestu á rannsókn Ragnars, Björgvins og tæknideildar lögreglunnar. 

Á heimili ákærða fannst úlpa með blóðblettum og blóðugt slökkvitæki. Ákærði útskýrði blettina með ýmsum hætti en með blóðferlagreiningu var hægt að hrekja framburð hans og sýna fram á að andlátið hefði borið að með saknæmum hætti. Ragnar tekur fram að blóðferlagreiningin hafi ekki gildi nema DNA-greining styðji hana enda leiddu rannsóknir í ljós að blóðið á heimili ákærða var úr hinum látna. „Þetta helst algjörlega í hendur. Við erum háð DNA.“ 

Fræðifólkið sem velur efni í meinafræðibækurnar er meðal þeirra fremstu á sínu sviði. Þau töldu greinina vera gott dæmi um hvernig rannsókn er útskýrð og atburðarás endurgerð fyrir dómstólnum með rökstuðningi. 

Skáldskapurinn skemmtilegur en oft rangur  

Ragnar segir að fag hans og réttarmeinafræðin sem fræðigrein sé á mikilli siglingu. Þrívíddartækni, ljósgjafar og efnablöndur sem nema til dæmis minnstu ummerki um blóð, eru dæmi um framþróun sem hefur orðið síðustu ár. Tæknideild lögreglunnar hér á landi sé mjög góð og samráð og aðstoð kollega annars staðar á Norðurlöndunum skipti líka máli. 

Ragnar er meðvitaður um að mikill áhugi er á störfum hans og félaga hans. Glæpasögur, hvort heldur er í útvarpi, sjónvarpi eða bókum, njóta gríðarlegra vinsælda og þættir eins og Dexter og CSI snúast að miklu leyti um störf meinfræðinga og blóðferlasérfræðinga. Ragnari finnst skáldskapinn skemmtilegur og hann lætur rangar birtingarmyndir ekki fara mikið í taugarnar á sér. Það sé þó miklu meiri vitleysa í bandarísku efni en því breska og skandinavíska.  

„Ég er löngu hættur að vera leiðinlegi gæinn, það er alveg hægt að horfa á þetta með mér í dag. Ég bara slekk á skynseminni og reyni að hafa gaman af þessu.“ 

Mikið af þeim breytingum og framþróun sem hafi orðið innan lögreglunnar segir Ragnar að séu ekki komnar til af góðu heldur sé nauðsynlegt að bregðast við breyttu samfélagi. „Þegar ég byrjaði var ég í hátíðarbúningi með trékylfu og handjárn í beltinu, í dag er unga fólkið á götunni í hnífavestum, með búkmyndavélar og tækjabelti.“

Rætt var við Ragnar Jónsson í Samfélaginu á Rás 1. Hægt er að hlýða á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.