Birkiskógar skulu þekja 5% landsins

23.09.2022 - 13:10
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Nú er tilefni til að rífa fram stakkinn og stígvélin og finna næsta birkiskóg því landssöfnun birkifræja er hafin þetta árið. Markmiðið er að birkiskógar þekji 5% landsins árið 2031.

Vernda og byggja upp vistkerfi landsins

Kristinn H. Þorsteinsson, verkefnisstjóri landsátaks söfnunar og sáningu birkifræja, segir áskorunina mikla en velvild landsbúa sömuleiðis. „Þetta verkefni hófst árið 2020 því að þá hófst áratugur Sameinuðu þjóðanna um verndum og uppbyggingu vistkerfa. Síðan tekur ríkisstjórnin áskorun, það er svokölluð Bonn áskorun, um það að stækka birkiskóga og birkileifar landsins úr 1,5% upp í 5% fyrir árið 2031.“

„Við þurfum einstaklinga, fyrirtæki, skóla  og fjölskyldur“

Þessi 5% af landinu samsvara rúmum 5000 ferkílómetrum. Átakinu var formlega hleypt af stokknum í Garðsárreit í Eyjafjarðarsveit í vikunni þar sem fólk safnaðist saman, tíndi fræ og fræddist um þau. „Við ætlum að klæða landið og til þess að geta klætt landið og farið upp í 5% þá þurfum við margar hendur, við þurfum alla þjóðina meira og minna. Við þurfum einstaklinga, fyrirtæki, skóla  og fjölskyldur og þannig getum við haldið áfram að telja.“

Margar hendur vinna létt verk

Þurrkuðum fræjum má skila á allar Olísstöðvar og Bónusverslanir á landinu og þannig stuðla að auknum landgæðum og kolefnisbindingu. „Svo við setjum þetta í samhengi þá eru um 450 fræ í einni teskeið. Þannig að við erum fljót að tína ef við leggjum okkur saman.“