Baráttan heldur áfram

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður félags heyrnarlausra segir að margt vel menntað táknmálstalandi fagfólk eigi í erfiðleikum með að fá vinnu. Hér vanti lög sem gefa fólki tækifæri á vinnumarkaðnum líkt og tíðkast á Norðurlöndum. Alþjóðadagur táknmála er í dag.

Félagið hélt upp á daginn í húsakynnum sínum í Þverholtinu í Reykjavík í dag. Hvaða þýðingu hefur þessi dagur? „Þetta er dagurinn sem við horfum inn á við og minnumst þess að við gefumst aldrei upp fyrr en táknmálin hafa öðlast sama rétt og raddmál", segir Heiðdís Dögg Eiríksdóttir formaður.

Fyrir tveimur árum gerðust Íslendingar aðilar að sáttmála alþjóðasamtaka heyrnarlausra um rétt allra til táknmáls. „Það eru margir litlir sigrar og nokkrir stórir sem hafa unnist en við erum ekki búin enn þá. Baráttan heldur áfram þangað til við höfum náð fullum rétti og fullu jafnrétti". 

Í rúmlega 60 ára sögu Félags heyrnarlausra á Íslandi hafa baráttumálin verið mörg, en hvað er brýnast núna? „Núna í augnablikinu dettur mér helst að segja túlkun í atvinnulífinu. Við erum með margt vel menntað táknmálstalandi fagfólk sem á í erfiðleikum með að fá vinnu. Á Norðurlöndunum er þetta ekki vandamál. Þar eru lög eða reglur sem gefa fólki tækifæri á vinnumarkaðnum".

Krafa ykkar er að stjórnvöld geri betur?  „Algjörlega það er á hreinu, helst í gær". Hvernig gengur ungum börnum sem eru ekki með fulla heyrn að læra táknmál? "Einstaklingur sem þarf táknmál þarf að fá námsumhverfi sem er á táknmáli. Hann þarf fyrirmyndir sem eru á táknmáli, táknmálstalandi kennara til þess að hann nái framgangi í námi. En það er erfitt í því umhverfi sem skóli án aðgreiningar er".

Arnar Björnsson