Uppsagnir á skipi HG viðbúnar

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Hraðfrystihúsið Gunnvör hefur sagt upp þrettán manna áhöfn skipsins Stefnis ÍS og ætlar sér að hætta útgerð þess um áramótin. Þetta er gert vegna samdráttar í þorskveiðikvóta og úthlutuðu aflamarki gullkarfa.

Stefnir ÍS er eitt þriggja skipa HG, en leitast verður við að finna skipverjum starf á hinum skipunum eftir því sem kostur er. Þorskkvóti hefur dregist saman um 23 prósent á síðustu tveimur árum. Aflaheimildir HG hafa þar með dregist saman um tólf hundruð tonn.

Forsvarsmenn HG gáfu ekki kost á viðtali. 

Viðbúið að niðurskurður á kvóta hafi veruleg áhrif

Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir tíðindin slæm en viðbúin. Hún bendir á að niðurskurður á þorski sé jafngildi tveggja til þriggja mánaða veiða. 

„Og þegar fyrirtæki eru með metnað í því og hafa lagt sig fram um það og hafa skapað vel launuð heilsársstörf þá augljóslega mun hafa veruleg áhrif þegar niðurskurðurinn verður svo mikill á svo skömmum tíma.“ 

Við það bætist niðurskurður í karfa og ekki líklegt að hann aukist aftur. Hún vonar að aðrar útgerðir þurfi ekki að grípa til álíkra aðgerða, en að reynslan sýni að langvarandi niðurskurður verði til fækkunar í flotanum. 

„Niðurskurður til lengri tíma, hann getur ekki annað en kallað á það að áætlanir séu endurskoðaðar. En maður vonar svo sannarlega að við séum ekki komin á þann stað að það verði frekari niðurskurður, sérstaklega í þorskinum.“