„Þolinmæði hefur alltaf verið mín sterka hlið“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þolinmæði hefur alltaf verið mín sterka hlið“

22.09.2022 - 06:45
Guðjón Valur Sigurðsson hefur farið vel af stað með hið forna stórveldi Gummersbach í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta. Gummersbach er nýliði í deildinni og hefur unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum.

Guðjón Valur lagði skóna á hilluna árið 2020, þá fertugur og markahæsti landsliðsmaður sögunnar í handboltaheiminum. Strax þá um sumarið tók hann svo við Gummersbach, sem þá lék í næstefstu deild. Á öðru ári sínu með Gummersbach tryggði liðið sæti sitt í deild þeirra bestu og þar hefur byrjunin verið framar vonum, með þrjá sigra í fyrstu fjórum leikjunum.

Stoltir af þessari byrjun

„Ég er náttúrulega glaður með þessa byrjun. Þetta er kannski ekki beinlínis það sem maður reiknaði með. Við erum klárlega stoltir af þessari byrjun því við erum búnir að vera að spila við sterk lið og á tveimur erfiðum útivöllum meðal annars.”

Miklar kröfur

Gummersbach er sögufrægt félag í Þýskalandi og er næstsigursælasta félag sögunnar þar í landi. Guðjón Valur lék sjálfur með félaginu árin 2005-2008 og varð markakóngur úrvalsdeildarinnar á tíma sínum þar. Hann segir margt hafa breyst á þessum tíma, en þó ekki kröfurnar úr samfélaginu.

„Þetta merki Gummersbach er kannski þyngra en mörg önnur í handboltaheiminum en kröfurnar í samfélaginu og í gamla Gummersbacharanum hafa ekkert breyst. Þeir vilja sjá liðið sitt spila um allt aðra hluti en gegn falli eða að hanga í annarri deild. Það er bara gaman að takast á við það.”

Lærir ýmislegt á sjálfan sig

Guðjón Valur segist sjálfur alls ekki hafa verið sannfærður um að hann yrði þjálfari, að leikmannsferlinum loknum. Hann hafi líka lært mikið á skömmum tíma.

„Maður lærir ýmislegt á sjálfan sig og aðra líka. Ég held að margir leikmenn sem hafa náð ágætis árangri og snúið sér að þjálfun hafa komist fljótt að því að það þýðir ekki bara að tala um hlutina. Það þarf að æfa þá og útskýra þá vel og koma vel frá sér. Þolinmæði hefur alltaf verið mín sterka hlið og hún hefur styrkst enn frekar eftir að ég varð þjálfari, held ég.”

Tengdar fréttir

Handbolti

Guðjón Valur tekur við Gummersbach