Nýtt frumvarp um forvirkar rannsóknarheimildir tilbúið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frumvarp um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu er tilbúið í dómsmálaráðuneytinu og mun líta dagsins ljós fljótlega. Þetta sagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í viðtali í sjónvarpsfréttum í kvöld.

Tveir íslenskir karlmenn voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í dag, grunaðir um að undirbúa fjöldaárásir hér á landi, sem lögregla rannsakar sem tilraun til hryðjuverka. Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn staðfesti í Kastljósi í kvöld að árásin hafi átt beinast gegn að minnsta kosti lögregluyfirvöldum og Alþingi. Lögregla ítrekar að samfélaginu sé ekki hætta búin. 

Alls voru fjórir íslenskir karlmenn handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu í Kópavogi og Mosfellsbæ í gær. Þeir eru allir á þrítugsaldri.

Dómsmálaráðherra sagðist sleginn í viðtali í kvöld. Skelfilegar aðstæður séu nú að myndast og fólk verði að horfast í augu við raunveruleikann. Hann hrósaði lögreglu fyrir að hafa afstýrt voðaatburði.

„Það er traustvekjandi að þeir hafi náð þessum árangri, eins og er raunar að birtast okkur í mörgum stórum málum undanfarið.“

Þá sagði hann frumvarp um heimildir til forvirkra rannsókna, eða afbrotavarna, tilbúið í ráðuneytinu.

„. Það er nákvæmlega það sem er kallað eftir. Það vill svo til að í þeirri vinnu sem við höfum verið í undanfarna sjö mánuði með yfirmönnum lögreglu og lögreglumönnum að þá er tilbúið frumvarp í dómsmálaráðuneytinu um frekari heimildir til afbrotavarna.“

Aðspurður um hvort hann telji frumvarpið verða samþykkt sagði hann að mikill ágreiningur hafi verið um frumvörp af þessu tagi.

„Ég held að þetta færi okkur svolítið til raunveruleikans og hvetji okkur til að horfast í augu við þá stöðu að við þurfum að geta unnið svona sem næst þeim vettvangi sem þau lögregluembætti sem við erum að starfa mest með, þegar kemur til að mynda að skipulagðri brotastarfsemi, við þurfum að geta unnið með þeim. Þetta er nauðsynlegt til að við getum verið á sama leikvellinum,“ sagði Jón.

Þá sagði Jón það æ ríkari þátt í störfum lögreglu að reyna að kortleggja afbrot fyrirfram og átta sig á því hvað er hægt að koma í veg fyrir. Forgangsraða þurfi öryggi lögreglu og þess sem hún þarf til að vinna vinnuna sína.