Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Landsréttur staðfestir nauðgunardóm yfir fótboltamanni

22.09.2022 - 16:25
Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú
Landsréttur staðfest í dag tveggja og hálfs árs dóm yfir knattspyrnumanninum Andres Escobar. Hann lék með Leikni í úrvalsdeild á síðasta tímabili og hefur verið í farbanni vegna málsins. Dómurinn hafnaði skýringum hans að skóbúnaður konunnar hefði átt þátt í göngulagi hennar.

Landsréttur segir í dómi sínum að Escobar hafi notfært sér ölvun konunnar þannig að hún gat ekki spornað við verknaðinum.  Telur dómurinn að brot hans hafi verið gróft, það hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir konuna og með því hafi hann brotið gegn kynfrelsi hennar.

Escobar, sem er frá Kólumbíu, veitti sjónvarpsstöð í heimalandi sínu viðtal í mars. Þar sagðist hann vera með sönnunargögn sem sönnuðu sakleysi hans. „Ég hef verið beittur órétti. Ég er saklaus af ákærunni og vil biðja um hjálp, hvort sem það er frá stjórnvöldum eða einhverjum sérfræðingum.“

Landsréttur mat framburð konunnar trúverðugan en sagði framburð Escobars hafa á hinn boginn ekki verið að öllu leyti stöðugur, svo sem um ástand konunnar þegar þau hittust, ástand hennar í miðbæ Reykjavíkur og svo á heimili hans. Dómurinn setur þó þann fyrirvara að túlkun á framburði hans úr spænsku kunni þar að hafa áhrif. 

Landsréttur taldi það jafnframt ótrúverðuga skýringu að hann hafi talið skóbúnað konunnar eiga þátt í göngulagi hennar. Hún hafi verið í sléttbotna stígvélum sem ekkert bendir til að hafi gert henni erfitt með gang.

Mál Escobar vakti nokkra athygli í Kólumbíu þar sem vefmiðlar hafa rifjað upp feril hans sem virðist hafa verið býsna skrautlegur. Hann var um tíma meðal efnilegustu leikmanna Kólumbíu og lék meðal annars með stórstjörnunni James Rodriguez í yngri landsliðum landsins.