Forvirkar rannsóknarheimildir: Einboðnar eða ofríki?

Mynd: Samsett / RÚV
Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi lögreglumaður, segir frumvörp dómsmálaráðherra um forvirkar rannsóknarheimildir til mikilla bóta. Lögreglan hafi lengi vakið máls á takmörkuðum úrræðum sínum til að takast á við skipulagða glæpastarfsemi.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, telur hins vegar að byrjað sé á ögfugum enda og fyrst þurfi að styrkja eftirlit með lögreglu til að tryggja að eftirlit og hleranir haldist innan marka. Þegar séu brotalamir í eftirliti.

Margumrætt mál

Lengi hefur verið tekist á heimildir lögreglu til forvirkra rannsókna, svo hún geti rannsakað brot sem eru enn í undirbúningi. Lögreglan hefur um árabil talið sig þurfa víðtækari heimildir til þess og vísað til baráttu við skipulagðra glæpastarfsemi.

Oft hefur staðið til að leggja fram slík frumvörp, allt frá dögum Björns Bjarnasonar í dómsmálaráðuneytinu í byrjun aldar.

Árið 2007 tók til starfa greiningardeild ríkislögreglustjóra, en hún hefur á forræði sínu rannsóknir á skipulagðri glæpastarfsemi og sinnir fyrirbyggjandi vinnu. Þetta eru verkefni sem víðast hvar í heiminum eru í höndum leyniþjónustustofnana sem oft hafa víðtækar heimildir til eftirlits með almennum borgurum.

Fréttir gærdagsins af hryðjuverkaárás sem hrundið var aftur, hafa vitanlega orðið til þess að blása lífi í umræðu um verkfæri lögreglu. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra greindi frá því í Kastljósi á fimmtudag að hann hygðist leggja fram tvö frumvörp á Alþingi í haust, um þetta mál.

Frumvörpunum er meðal annars ætlað að skerpa á heimildum lögreglu til að afla upplýsinga og viðhafa eftirlit með fólki í því skyni að draga úr brotastarfsemi.

Í því felst meðal annars samskipti við uppljóstrara, eftirlit á almannafæri og vöktun vefsíðna sem opnar eru almenningi. Þetta eru heimildir sem hingað til hafa verið taldar leiða af ákvæðum lögreglulaga, án þess þó að fjallað sé sérstaklega um þær í lögunum.

Hægt að fylgjast með fólki án gruns um ákveðið brot

Með þeim forvirku rannsóknarheimildum sem kveðið er á um í frumvarpinu er hins vegar átt við heimildir lögreglu til að hefja rannsókn og fylgjast með einstaklingum án þess að þeir séu grunaðir um að hafa framið tiltekið afbrot. Þetta er að því gefnu að þeir hafi tengsl við skipulagða brotastarfsemi eða að almannaöryggi sé talin stafa sérstök hætta af þeim.

Verði frumvörpin að lögum getur lögreglu sumsé hafið rannsókn á fólki, og til dæmis hlerað það, og aflað upplýsinga um viðkomandi hjá öllum opinberum stjórnvöldum og stofnunum.

Frumvörp dómsmálaráðherra eru á engan hátt viðbragð við fréttum gærdagsins. Það stóð alltaf til að leggja þau fram, og bæði hafa þau verið kynnt áður. En viðbúið er að umræðan í þinginu litist af atburðum síðustu daga.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, og Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins, ræddu ágæti frumvarpsins í Speglinum í kvöld.

Takmörkuð úrræði

Stefán Vagn segir að lögregla þurfi að geta vaktað fólk án þess að þeir séu grunaðir um tiltekinn glæp. Hann tekur dæmi af því að ef hingað til lands koma menn frá öðrum löndum, sem lögregla í nágrannalöndum hefur fylgst með vegna gruns um hryðjuverkastarfsemi eða aðra skipulagða glæpastarfsemi, þá hafi lögregla engar heimildir til að fylgjast með þeim.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, telur að með frumvarpinu sé byrjað á röngum enda. Fyrst þurfi að skerpa á eftirliti með lögreglu.

„Ef vilji er fyrir því að auka valdheimildir lögreglu, þá þarf fyrst að vera algerlega á hreinu að það sé sjálfstætt eftirlit með störfum hennar,“ segir Þórhildur Sunna.

Ríkissaksóknari eigi til dæmis að hafa eftirlit með hlerunum lögreglu, en hann hafi þurft að standa í „furðulegum deilum“ við ríkislögreglustjóra um gögn um hleranir þannig að hægt sé að fylgjast með því hverjir hafa aðgang að hlerunum. Því hafi ekki verið fylgt. Þessu eftirliti var komið á með lögum fyrir um áratug.

Þórhildur Sunna segir að tryggja þurfi að lögin verði ekki misnotuð og brotið á mannréttindum fólks. „Sjálf verð ég að segja að það að gefa lögreglunni heimildir til að njósna um fjólk, sem ekki liggur undir grun fyrir að hafa framið nokkuð refsivert brot, það vekur upp mikla hættu á að brotið sé á mannréttindum einstaklinga.“

Nefnd um eftirlit með lögreglu

Á Norðurlöndum eru starfandi stofnanir sem hafa eftirlit með lögreglu og leyniþjónustu, til að mynda í Danmörku, Tilsynet med Efterretningstjene-sterne.

Á Íslandi er starfandi nefnd um eftirlit með lögreglu, en í henni starfa aðeins þrír og til marks um litla burði nefndarinnar hefur hún ekki gefið út ársskýrslu frá árinu 2019, þrátt fyrir að í reglugerð sé kveðið á um að hún geri það árlega og birti opinberlega á vefsíðu sinni.

Traust til lögreglu mikið

Stefán Vagn bendir á að traust til lögreglu sé mjög mikið -- með því hæsta í flokki stofnana ríkisins. Í síðasta þjóðarpúlsi Gallup mældist það 78 prósent. Hann segist ekki mótfallinn því að eftirlit með lögreglu sé aukið.

„Stóra málið er að lögreglan fái þessar heimildir og geti tryggt öryggi íbúa þessa lands með þeim hætti sem þjóðin er að kalla eftir. Hún hefur þær ekki núna, en þessi þessi skipulagða glæpastarfsemi er nú orðinn hér í ansi í ríkara mæli eins og bara gögn greiningardeildar og annarra sýna.“

Vakning fyrir marga

Þórhildur Sunna og Stefán Vagn segja að þeim hafi báðum brugðið við að heyra tíðindi gærdagsins um skipulagningu hryðjuverka. Lögregla hélt spilunum þétt að sér meðan á undirbúningi aðgerða stóð og þingmönnum var ekki gert viðvart, að frátöldu þjóðaröryggisráði.

Þórhildur Sunna segir að horfast þurfi í augu við þá miklu vinnu sem er lögð í að radíkalisera (róttækla) unga menn á internetinu og gera þá afhuga samfélaginu. „Við þurfum að skoða hvað við getum gert til að sporna við því og auka á samheldnina í samfélaginu.“

Stefán Vagn segir sömuleiðis að atburðirnir veki upp mikinn óhug. „Ég held að það sé alveg við hæfi að þakka lögreglunni kærlega fyrir þeirra framtak í þessu máli sem var alveg gríðarlega vel unnið. En þótt þessi ógn sé yfirstaðin held ég að þetta hafi verið ákveðin vakning fyrir marga um að við þurfum að horfa á hlutina í aðeins öðru ljósi.“