„Fólk með fötlun á að fá að taka þátt í öllu!“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - RÚV

„Fólk með fötlun á að fá að taka þátt í öllu!“

22.09.2022 - 17:51

Höfundar

Fólk með fötlun á að fá að taka þátt í öllu á öllum stigum samfélagsins. Það á eins og allir aðrir að fá tækifæri til að vinna alls konar störf. Þetta segir Embla Guðrúnardóttir Ágústsdóttir. Hún furðar sig á að Þjóðleikhúsið fái ófatlaða leikara til að leika mann með fötlun. Það sé tímaskekkja sem næri úreltar staðalímyndir. 

 

Verkið Sem á himni var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu fyrir nokkrum dögum. Komið hefur fram gagnrýni á að ófatlaður leikari leiki þar mann með fötlun. Heit umræða er um málið á Facebook síðunni Menningarátökin. Emblu finnst ekki viðeigandi að ófatlað fólk leiki fólk með fötlun.

„Okkur finnst þetta ekki við hæfi lengur varðandi aðra hópa. Við gerum þetta ekki lengur varðandi kynþátt og ekki varðandi kyn. Karlar leika ekki konur lengur nema að það sé eitthvað grín í gangi. Hvenær ætlum við sem samfélag að komast á þann stað að vilja fá fatlað fólk á svið.“

Hún segir að fólk með fötlun hafi mjög skertan aðgang að leiklistarnámi.

„Og það snýst ekki bara um aðgengi, -heldur líka það að okkur er sagt:  „Jah,.... við getum ekki menntað ykkur sem leikara því þið fáið aldrei vinnu því að það eru ekki fötluð hlutverk.“ En svo þegar að það koma fötluð hlutverk að þá fá þeir ófatlaða leikara. Þannig að þetta er spírall.“

Leikhúsum sé stýrt af ófötluðu fólki. Meðan svo sé grasseri úreltar staðalímyndir um fólk með fötlun.

„Við erum birt sem kynlaus og við erum birt sem barnaleg og við erum látin pissa á okkur og alls konar svoleiðis. Sem er alveg eitthvað sem gerist. En það gerist bara svo margt, margt annað í okkar lífi. Og það er eitthvað sem að er ekki sýnt því að fólkið sem hefur ekki þá reynslu getur ekki sýnt það. Þannig að við erum einhvern veginn að missa af svo ótrúlega mörgu vegna þess að þetta er svona aðgreint.“

Emblu finnst öll rök sem snúi að kröfum um viðurkennda leiklistarmenntun ekki halda vatni. Margir af færustu og ástsælustu leikurum landsins séu ekki faglærðir. En þeir hafi á einhverjum tímapunkti fengið tækifæri til að byggja feril sinn á.

„Það er fullt af stórum leikurum  sem að hafa ekki leikaramenntun og það er allt í góðu. En þegar kemur að fötluðum þá er allt í einu sett upp svakaleg krafa um að hafa tiltekna menntun sem að við höfum hingað til ekki geta fengið.“

Hún bendir líka á að sönn fagmensska geti  líka birst í því að fólk leiki reynslu sem það þekki vel og af eigin raun.

„Það er fagmennska sem að við verðum að fara að horfast í augu við að skipti máli. Þannig að ég held að við séum að missa af svo ótrúlega dýrmætri reynslu og dýrmætri sýn með því að útiloka fólk svona mikið frá sviðinu. Það skiptir rosalega miklu  máli í samfélaginu að fatlað fólk taki þátt í öllu á öllum stigum samfélagsins og sé að vinna alls konar störf. Og leikhúsið, og sérstaklega Þjóðleikhúsið, vill endurspegla samfélagið. Það það gerir það ekki ef það fær ekki fatlað fólk til þess að leika.“