Ekkert grín að vera fræg sem barn

Mynd: Santiago Felipe / Björk

Ekkert grín að vera fræg sem barn

22.09.2022 - 17:13

Höfundar

„Allt í einu vita allir hver þú ert í strætó, það er ekkert grín,“ segir Björk Guðmundsdóttir um reynslu sína af því að vera barnastjarna á Íslandi. Hún segist alltaf hafa viljað vernda börnin sín frá frægðinni vegna þeirrar reynslu en þau stíga nú fram á nýjustu plötu hennar, sem væntanleg er í næstu viku.

Tíunda hljóðversplata Bjarkar er væntanleg í lok mánaðar og ber nafnið Fossora. Platan er mjög persónuleg, textarnir fjalla meðal annars um móðurmissi Bjarkar og börn hennar vinna með henni á plötunni. Björk ræddi um nýju plötuna í Víðsjá á Rás 1, um hlaðvarp sem varpað hefur nýju ljósi á ævistarf hennar og um samskipti hennar og Katrínar Jakobsdóttur í aðdraganda loftlagsþings Sameinuðu þjóðanna árið 2019. 

Minnist móður sinnar í samstarfi við börnin sín

Nýtt lag af væntanlegri plötu Bjarkar kom út í dag, lagið Ancestress. Lagið er ort eftir móður Bjarkar og er systurlag Sorrowful Soil sem einnig er sungið til móður Bjarkar og er að finna á plötunni. Sonur Bjarkar, Sindri, minnist ömmu sinnar á Ancestress, útsetur raddir og syngur viðlag lagsins. Björk segir Sindra hafa verið mjög tengdan ömmu sinni. „Hún var bara 40 þegar að hann fæddist þannig að hann langaði að þakka fyrir sig og gerir raddútsetningar í lagið um hana.“ 

Dóttir Bjarkar kemur einnig fram á plötunni og þetta er í fyrsta sinn sem börn hennar eru með henni á plötu. „Þau eru bæði orðin fullorðin, þá geta þau sagt nei ef þau vilja það ekki.“ Hún segist alltaf hafa viljað vernda börn sín fyrir frægðinni og leyfa þeim að eiga sjálfstætt líf. „Ég held að það sé svolítið erfitt stundum að vera barn frægs fólks, að þú sért að gera eitthvað á eigin forsendum.“ Þegar Björk sjálf var stelpa gaf hún út plötu og fékk að reyna frægðina á eigin skinni. „Þegar þú ert ungur, þú segir já við einhverju, eins og ég prófaði að gera plötu þegar ég var 11 ára og allt í einu vita allir hver þú ert í strætó, það er ekkert grín.“

Í tónlistarmyndbandi við Ancestress kveður Björk móður sína með táknrænum hætti. Myndbandið er tekið upp í dal þar sem móðir Bjarkar týndi oft jurtir og í því kveður hópur listamanna ættmóðurina í merkingarþrunginni helgiathöfn þar sem líf hennar er heiðrað. 

Lagið er á tíundu hljóðversplötu Bjarkar, sem er væntanleg í lok mánaðar og heitir Fossora. Platan sprettur undan heimsfaraldri þar sem Björk dvaldi mikið í faðmi vina og fjölskyldu á Íslandi og jarðtengdist. Hún segir að þeirra áhrifa gæti á plötunni sem er með þyngri og jarðbundnari hljóðheim en platan á undan, hin létta og loftkennda Utopia.

Annars heims þjóðir á mörkum náttúru og nútíma 

Björk hefur alla tíð unnið mikið með öðrum listamönnum og til að mynda notið taktsmíða ýmissa aðila. Á nýju plötunni er hún í samstarfi við tónlistarmanninn Kasimuyn úr hljómsveitinni Gabber Modus Operandi frá Indónesíu. Í hlaðvarpi sínu talar Björk um að hún leiti gjarnan til þess sem hún kallar annars heims tónlist. Þá á hún ekki við fyrsta heims eða þriðja heims tónlist, heldur tónlist þeirra menningarheima sem hafa verið lausir við vestræna hugsun. „Við Íslendingar við erum það sem ég kalla annars heims land. Við erum mjög vel stæð og höfum það mjög gott hérna en við erum með náttúruna og við urðum ekki nútímaland fyrr en, það er minna en öld síðan.“ Hún segir að lönd eins og Ísland, Brasilía, Taíland, Indónesía og fleiri eigi í öðru sambandi við náttúruna en þau lönd sem gjarnan eru kölluð fyrsta heims lönd. „Við erum samt með alla tæknina og allan nútímann, við erum í miðjunni.“  

Henni finnst mikilvægt að tengjast öðrum þjóðum með sambærilegan reynsluheim og Íslendingar. „Mér finnst meiri heiðarleiki í því.“ Björk segir að þegar hún hóf feril sinn hafi viðhorf kynslóðarinnar á undan almennt verið á þá leið að það ætti að vinna íslenska list á Íslandi með Íslendingum, annað væri hálfgert svindl. „Mér fannst svolítil læsing þar.“ Björk segist vera af kynslóð sem hafði nægilega mikið sjálfsöryggi til að treysta því að list þeirra gæti verið rammíslensk þó hún væri unnin í alþjóðlegu samstarfi. „Ég kem frá níunda áratugnum í einhverju svona augnabliki á Íslandi þar sem það var mikilvægt, ekki bara að vera í lopapeysum að tala um álfa, að vera þátttakandi í menningu sem er að gerast núna.“  

Hamlandi fjötrar konsepta og þríleikstvennan

Hlaðvarp Bjarkar, þar sem hún fer ofan í kjölinn á listrænu ferli hverrar og einnar af hljóðversplötum sínum, hefur vakið mikla athygli. Þar ræðir hún við Oddnýju Eir Ævarsdóttur og Ásmund Jónsson um sköpunarferli hverrar plötu og það hefur opnað henni nýja sýn á listaverk sín. Í endurlitinu hefur hún sett plöturnar í samhengi hverja við aðra og séð speglun í ferðalaginu frá plötunni Homogenic (1997) til Vespertine (2001) til Medúllu (2004) og svo Vulnicuru (2015), Utopiu (2017) og nýjustu plötunnar, Fossoru (2022). „Þá er fyrsta platan það sem gerist eitthvað dramatískt, hjartabrot og endir á tímabili, mjög mikið drama.“ Í plötunni á eftir er hún full vonar um bjarta framtíð og stórhuga. „Þá er maður oft svona glaður í að koma með manifestó eða einhverja hugmynd um paradís.“ Að lokum tekur þó við sátt við raunveruleikann og hið daglega líf. „Svo fer maður að lifa lífinu og þá kannski gerir maður helminginn af því sem maður ætlaði að gera.“  

Í gegnum tíðina segist Björk hafa fest sig í þema fyrir hverja plötu og jafnvel verið of upptekin af því að halda sig innan fastmótaðra marka. Á tónleikaröð sem hún hélt í Hörpu í fyrra fékk hún stóran hóp af hljóðfæraleikurum til liðs við sig og sá tónlistina í nýju ljósi. „Þá opnaðist inni í mér, æj, vertu ekki svona föst í einhverjum konseptum.“ Hún ákvað frekar að gefa hverju lagi fyrir sig það sem það þurfti.   

Hún segist hafa gefið sjálfri sér frelsi á Fossoru til að vera ekki bundin af ákveðnu þema. „Ég held að ég hafi kannski aðeins losað þar til, að vera ekki eins föst í konseptunum. Að konseptin séu meira hjálpartæki en í raun og veru á hvert lag bara að fá það sem það á skilið.“  

Tafarlausar aðgerðir og samstarfið við Gretu Thunberg 

Þó að textarnir séu persónulegir á plötum Bjarkar hafa þeir einnig stærri skírskotanir í samfélagsleg málefni. Hún segir fólk gjarnan draga rangar ályktanir um textana en finnst það ekkert verra. „Það tala margir lagahöfundar um þetta. Þeir tala um að það er alltaf eins og að öll lögin sem maður sé að syngja séu ástarlög.“ Hún segir þetta að einhverju leyti rétt, þó að þau séu ekki öll um rómantíska ást. „Stundum er maður að syngja um bílinn sinn eða frænku sína.“  

Það er þó ekki algilt að textarnir séu persónulegir. Björk hefur til að mynda látið sig umhverfismálefni varða og fjallar um þá baráttu á nýju plötunni. „Kannski er Fossora líka að tala um að lausnir í umhverfismálum, er ekki bara eitthvað manifestó, heldur þarf að koma hlutunum í verk, á jörðinni.“ Björk segir að tími fyrirætlana sé liðinn og nú þurfi aðgerðir. „Núna er komið að öðru stigi í umhverfismálum. Það er ekki einu sinni það í boði, við verðum að bregðast við núna, ekki glóballí heldur lókallí. Við verðum að hrinda af stað neyðarlögum og alls konar lausnum.“  

Afboðaði blaðamannafund að beiðni Katrínar  

Á tónleikaferðinni Cornucopia, sem fylgdi eftir níundu hljóðversplötu Bjarkar, plötunni Utopia, flutti hún ræðu Gretu Thunberg um aðgerðir í umhverfismálum. Þær Greta hafa unnið saman og efndu til blaðamannafundar í New York árið 2019. Á sama tíma var Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, stödd í borginni ásamt öðrum forsætisráðherrum Norðurlandanna til að taka þátt í þingi Sameinuðu þjóðanna um loftlagsmál. „Það sem gerist var að þarna um haustið þegar að Greta var að sigla bátnum yfir Atlantshafið og það voru margir að bíða eftir henni New York megin, þá akkúrat var Katrín yfir forsætisráðherrum Norðurlanda og við vissum að hún myndi vera með stóra ræðu þarna í Sameinuðu þjóðunum.“  

Björk og Greta ákváðu að setja sig í samband við Katrínu og láta hana vita af fyrirætluðum blaðamannafundi sínum þar sem þær ætluðu að skora á forsætisráðherra Norðurlandanna að lýsa yfir neyðarástandi í umhverfismálum. „Ég sagði við Gretu, veistu það, ég er með reynslu í baráttum mínum um álver á Íslandi. Það er ekki gott að fara í slag við stjórnmálamenn, þá kemur bara leðjuslagur og það kemur ekkert út úr því. Á ég ekki frekar að tala við hana og biðja hana um að gera þetta með okkur?“  

Björk fékk símanúmer Katrínar og sendi henni skilaboð. „Ég texta henni og sagði, heyrðu ég vildi bara láta þig vita það áður en þú flytur þína ræðu þá ætlum við Greta að vera með blaðamannafund. Ég er búin að skipuleggja þetta og við ætlum að skora á forsætisráðherra Norðurlanda að lýsa yfir neyðarástandi í umhverfismálum.“ Hún segist meðvituð um að með þessu hafi hún verið að ýta forsætisráðherra landsins upp að vegg en hafi þrátt fyrir það viljað koma hreint fram og gera grein fyrir áætlunum sínum. „Viltu ekki vera með okkur í því? Þú þarft ekki að lýsa yfir neyðarástandi eða neitt, heldur bara að skora á og segja að þið séuð að vinna í þessu.“  

Það stóð ekki á svörum. „Hún svaraði þá, sem að mér finnst kannski smá óheiðarlegt sem Katrín gerði, er að hún hefði kannski átt að segja þarna, nei veistu, þetta er aðeins of djarft fyrir mig. Við stjórnvöld ætlum ekki að vera með en gangi ykkur vel eða eitthvað svona.“ Það var þó ekki. „Það sem hún sagði var, heyrðu þið getið kanselerað þessum blaðamannafundi. Þið þurfið ekki að halda þennan blaðamannafund því ég ætla að lýsa þessu yfir hvort eð er í ræðunni minni hjá Sameinuðu þjóðunum.“  

Björk og Greta afboðuðu blaðamannafundinn. „Síðan beið ég eftir ræðunni og þá sagði hún ekki neitt.“ Hún segir að henni þyki Katrín hafa verið óheiðarleg í samskiptum þeirra. „Hún hefði bara átt að koma hreint fram og segja nei, við ætlum ekki að gera það og þá hefðum við getað staðið við okkar plön.“  

„Ég bara skil ekki af hverju við erum ekki búin að þessu“  

Björk segir að fyrir atvikið með blaðamannafundinn í New York haustið 2019 hafi hún getað skilið að staða Katrínar innan núverandi ríkisstjórnar væri snúin. „En síðan hefði ég kannski alveg verið með henni í liði og skilið að hún var í erfiðu samstarfi við þessa og hina flokka og svona en mér finnst þau bara síðustu ár ekki hafa gert neitt.“   

Hún segir að aðgerðaleysi í loftlagsmálum sé til skammar. „Upphæðin sem er núna í umhverfismálum, í loftlagssjóði, það er bara brandari.“ Það kemur Björk spánskt fyrir sjónir að fjármunum ríkissjóðs sé varið í að hjálpa kjötframleiðslu á landinu í matvælasjóði. „Jörðin brennur, það er bara hlægilegt.“  

Björk segir að draga megi þann lærdóm af heimsfaraldrinum að þegar neyðarástandi sé lýst yfir renni fjármagn til neyðarsjóðs. „Þá fer allt fjármagn, miklu meira fjármagn rennur átómatískt í helling af kategóríum og þá er hægt að bregðast miklu hraðar við.“ Þetta sé það sem þurfi til að takast á við loftlagsvána. „Plús það að núna eru 97 þjóðir búnar að lýsa yfir neyðarástandi. Öll Norðurlöndin nema Noregur og Ísland. Þannig að ég bara skil ekki af hverju við erum ekki búin að þessu.“  

Rætt var við Björk í Víðsjá á Rás 1.  Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV. 

Tengdar fréttir

Tónlist

„Þetta voru ein bestu þrjú ár ævi minnar“

Umhverfismál

Kannast ekki við að hafa svikið Björk og Gretu Thunberg

Stjórnmál

Björk sakar Katrínu um að hafa svikið sig og Gretu

Tónlist

„Það verður bara grátið í klukkutíma krakkar“