Alvarlegt að uppsögnum á bráðamóttöku fjölgi

22.09.2022 - 21:28
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Sjö hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku Landspítalans hætta störfum um mánaðamótin. Framkvæmdastjóri meðferðarsviðs segir að ekki hafi gengið nógu hratt að sporna við álagi á deildinni. Uppsagnirnar séu fleiri en á venjulegu ári eða 24, sem sé alvarlegt.

Álag og mannekla á Landspítala er kunnuglegt stef. Uppsagnir sjö hjúkrunarfræðinga á bráðamóttökunni í Fossvogi taka gildi næstu mánaðamót sem þýðir að 24 hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp á deildinni á árinu.

„Þetta er mjög alvarlegt og þetta er meira heldur en gerist á venjulegu ári, það er þannig. Það eru fleiri sem eru að segja upp út að álagi. Starfsemin er þannig að það kemur ekki endilega alltaf maður í manns stað, það tekur tíma að þjálfa nýtt fólk,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítala.

Á móti þessum 24 uppsögnum hafa 14 hjúkrunarfræðingar hafið störf á bráðamóttöku ásamt 16 nemum sem halda áfram eftir sumarráðningu. Ástæður uppsagnanna eru yfirleitt samspil margra þátta en Guðlaug Rakel segir að of margir hætti vegna álags.

Það er ljóst af gögnum frá Landspítala að róðurinn hefur þyngst, síðustu tvo mánuði dvöldu meira en 800 sjúklingar í meira en sólarhring á deildinni, sem er það mesta í heilt ár.

Fullmönnuð bráðamóttaka gerir ráð fyrir 90 stöðugildum af hjúkrunarfræðingum. Í dag starfa 108 hjúkrunarfræðingar í 74 stöðugildum. Það vantar því 16 stöðugildi upp á til að deildin sé fullmönnuð. „Það er bara alls ekki nógu gott. við höfum auglýst og fengið hjúkrunarfræðinga inn. En það þarf að þjálfa þá,“ segir Guðlaug Rakel

Landspítalinn hefur reynt að bæta vinnuaðstæður á bráðamóttökunni með því að opna nýja bráðadagdeild og fækka sjúklingum á deildinni. „Við höfum verið að reyna að þrýsta mjög þar á að koma fleirum inn á legudeildir, þannig þær eru orðnar þandar til hins ýtrasta ef við getum orðað það þannig.“

Hefur þetta gengið nógu hratt, miðað við uppsagnir núna í haust? „Persónulega finnst mér það ekki, þetta hefur ekki gengið nógu hratt,“ segir hún.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV