„Í raun bara spurning um vilja til framkvæmda“

Mynd: Einar Örn Jónsson / RÚV

„Í raun bara spurning um vilja til framkvæmda“

21.09.2022 - 09:09
Formenn Handknattleikssambands Íslands (HSÍ) og Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ) átta sig ekki á fréttum um tafir við byggingu þjóðarhallar í inniíþróttum. Viljayfirlýsing milli ríkis, borgar og íþróttahreyfingarinnar var undirrituð í maí, nokkrum dögum fyrir sveitarstjórnarkosningar og talað um að ný höll yrði risin 2025. Nú hafa ráðherrar dregið í land með það, en formenn HSÍ og KKÍ segja þetta snúast frekar um vilja til framkvæmda.

„Þessar yfirlýsingar voru gefnar út í vor. Við höfum talað um þörf á þjóðarhöll í fimmtán ár. Laugardalshöll var byggð árið 1965 og átti að duga í 15-20 ár. Síðan hefur þessi umræða alltaf skotið upp kollinum. Mér hefur þótt mikill slagkraftur verið í þessari umræðu svo, sem Ásmundur Einar [Daðason] leiddi svona framan af. Svo var þessi framkvæmdanefnd skipuð og þetta samkomulag við borgina gert eftir að búið var að fara í ákveðna grunnvinnu hvar staðsetningin ætti að vera á höfuðborgarsvæðinu. Laugardalurinn var niðurstaðan og ríki og borg voru sammála um það. Það má kannski segja að það hafi verið bratt að tala um að ný höll yrði risin 2025. En miðað við undirbúninginn og það sem var búið að gera er þetta í raun bara spurning um vilja til framkvæmda,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ.

„Þegar menn tala um peninga og byrja á því að ætla að skjóta þetta verkefni niður. Þá hefur þessi framkvæmdanefnd í raun það hlutverk að meta hvaða leið á að fara. Ég hef margoft bent á það að þó að ríki og borg ætli að standa að þessu þá þarf ekki fjármagnið að koma beint þaðan. Það er hægt að fá framkvæmdaraðila, nákvæmlega eins og Reykjavíkurborg hefur gert með Egilshöllina í Grafarvogi. Það er bara framkvæmdar- og rekstraraðili sem sér um það og það hefur gengið  mjög vel. Að ætla að slá þetta svona út af borðinu með einhverjum stórum yfirlýsingum núna finnst mér bara fáranlegt. Þessi framkvæmdanefnd er er rétt byrjuð að starfa. Það gæti allt eins verið niðurstaða nefndarinnar að það verði gert útboð um byggingu og rekstur á þessu mannvirki,“ sagði Guðmundur sem segist ekki ná þessum yfirlýsingum.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í fréttum í gærkvöld að þetta snúist ekkert endilega bara um peninga, heldur sé þetta líka alls kyns ákvarðanataka um hver eigi að eiga þetta, hver sjái um rekstur og skipting milli ríkis og borgar og svo framvegis.

Ætti ekki að hægja neitt á verkinu

„Auðvitað á þetta ekkert að hægja á verkinu. Þetta er alveg ekta svona þegar pólitíkin kemur inn í þetta, því miður. Við höfum haft allt sumarið til að vinna frá því yfirlýsingin var gerð í maí. Við kölluðum strax eftir því í vor að þessi vinna færi í gang strax. Þessi framkvæmdanefnd undir forsæti Gunnars Einarssonar fyrrverandi bæjarstjóra í Garðabæ var ekki skipuð fyrr en í ágúst og tók þá til starfa. Það hefur verið talað um að skipa svo einhverja samráðshópa sem við Guðmundur [B. Ólafsson formaður HSÍ] ættum að koma að. Við höfum samt ekki verið kallaðir neitt enn að borðinu þó það sé að koma septemberlok. Þetta kemur mér kannski ekki beint á óvart. En þetta eru mikil vonbrigði og það er skýrt að taka það fram,“ sagði Hannes S. Jónsson formaður KKÍ í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Hannes S. Jónsson formaður KKÍ.

„Öll þessi vinna sem talað er um að eigi eftir að fara fram er samt vinna sem var unnin í undirbúningsnefnd sem við Guðmundur sátum meðal annars í á síðustu árum. Sú vinna liggur til grundvallar þessari vinnu sem er núna. Í rauninni finnst mér þetta bara vera ákveðið viljaleysis ríkisins og þá borgarinnar líka,“ sagði Hannes.

Allt spjallið við Guðmund og Hannes í Morgunútvarpinu má hlusta á í spilaranum hér efst í fréttinni.