Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Óttast ekki óvinsældir

20.09.2022 - 17:23
epa10173056 British Prime Minister Liz Truss leaves Downing Street for the House of Commons to pay tributes to Queen Elizabeth II in London, Britain, 09 September 2022. Britain's Queen Elizabeth II died at her Scottish estate, Balmoral Castle, on 08 September 2022. The 96-year-old Queen was the longest-reigning monarch in British history.  EPA-EFE/TOLGA AKMEN
 Mynd: EPA
Liz Truss, forsætisráðherra Bretlands, og ríkisstjórn hennar ætlar að leggja fram sína fyrstu skattastefnu á föstudaginn. Með henni vill hún styrkja samkeppnisstöðu Bretlands og gera landið að álitlegri stað fyrir alþjóðlega fjárfesta. Hún hefur ekki áhyggjur af því að stefnan verði óvinsæl.

Kwasi Kwarteng, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Truss, leggur fram smá-fjárhagsáætlun (e. mini budget) á föstudaginn. Talið er að ráðherrann leggi meðal annars til að skattar verði lækkaðir umtalsvert. 

Truss telur að aðgerðirnar muni hagnast breskum almenningi og leiða til hagvaxtar. Helstu gallar breska hagkerfisins þessa dagana tengjast, að mati Truss, skorti á fjárfestingum, og hún telur að aðgerðirnar takist á við það.

„Það sem skiptir mig máli er að breska hagkerfið vaxi,“ sagði Truss í viðtali við Sky-fréttastofuna. „Því það leiðir að lokum til hærri launa, meiri fjárfestinga í bæjum og borgum um land allt. Það skilar meiri pening í vasa fólks, og það gerir okkur kleift að fjármagna heilbrigðiskerfið okkar.“

Forsætisráðherrann segist vera andvígur því að skattleggja hagnað orkufyrirtækja. Það komi til með að letja fjárfestingar, hindra vöxt hagkerfisins og skemma tækifæri fyrir Bretland. 

Þá varði Truss tillögur fjármálaráðherra að afnema þök á bónusum bankastarfsmanna. „Það sem ég vil sjá er að peningarnir í fjármálakerfi Lundúna (City of London) verði notaðir til góðs um allt land,“ segir Truss.

Hafnar því að skattalækkanir séu ósanngjarnar

Truss var spurð út í möguleg viðbrögð við stefnu hennar, og hún svaraði að hún óttaðist ekki að aðgerðirnar yrðu óvinsælar. Þá segist hún ósammála gagnrýnisröddum sem halda því fram að skattalækkanir séu ósanngjarnar.

„Það sem við vitum er að fólk með hærri tekjur borga að jafnaði hærri skatta,“ sagði Truss. „Þannig þegar þú lækkar skatta, hefur það gjarnan ósamsvarandi áhrif vegna þess að fólk greiðir hærri skatta til að byrja með.“

peturm's picture
Pétur Magnússon
Fréttastofa RÚV