„Ég upplifi sjálfa mig sem oft óvart óviðeigandi“

Mynd: Rúv / Rúv

„Ég upplifi sjálfa mig sem oft óvart óviðeigandi“

18.09.2022 - 09:00

Höfundar

Lóa Hjálmtýsdóttir segist ekki njóta sín í margmenni og bryddar gjarnan óvart upp á óviðeigandi umræðuefnum við slík tilefni. „Ég fer bara í eitthvað svona, sástu manninn sem datt þarna niður stigann?“ Fram undan er þó jólabókaflóð þar sem Lóa fylgir eftir tveim bókum með tilheyrandi viðtölum og mannamótum.

Fjöllistakonan Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir hefur litlar áhyggjur af hvort hún sé fyndin eða ekki. „Ég vakna ekki á morgnana og segi, jæja núna ætla ég að skemmta fólki.“ Myndasögur hennar hafa þó slegið í gegn og mannskilningur hennar og spaugileg samskipti eru gjarnan í fyrirrúmi. Lóa hefur gefið út tónlist um árabil með hljómsveitinni FM Belfast, skrifað handrit og gefið út bækur. Nýjasta bók hennar, Mamma kaka, kom út á dögunum og fyrir jólin væntanlegt sjálfstætt framhald af hinni geysivinsælu Grísafjörður, sem heitir Héragerði. Lóa ræddi við Segðu mér á Rás 1 um óhóflega bjartsýni sína, að hlera samtöl ókunnugra og námsárin í New York. 

Fær þráhyggju fyrir leiðinlegu fólki 

Lóa segist stundum standa sig að því að fylgjast gaumgæfilega með fólki í kringum sig. „Eins og til dæmis ef einhver manneskja fer í taugarnar á mér þá fæ ég þráhyggju fyrir manneskjunni af því að ég verð að skilja af hverju hún er pirrandi.“ Hún segir að sér finnist sérstaklega áhugavert að hugsa um hvernig einhver er skemmtilegur og einhver er leiðinlegur.  

Í verkum sínum skoðar Lóa gjarnan samskipti fólks og hefur gaman af að hlusta á ókunnugt fólk tala. „Bókin eftir Margréti Bjarnadóttur, Orðið á götunni held ég að hún hafi heitið, þar safnaði hún setningum sem hún heyrði.“ Í bókinni safnaði Margrét saman setningum sem hún heyrði í framhjáhlaupi. „Þetta er alveg ógeðslega fyndin bók af því að þú færð bara augnablik inn í líf einhvers.“ 

Svitnar í lófunum í margmenni 

Rétt eins og Margrét kannast Lóa við að heyra skemmtilegar setningar útundan sér. „Eins og nýlegt uppáhaldið mitt var einhver maður í Kringlunni sem að var að labba og var ótrúlega sjúskaður og hann labbar og er að tala í símann og hann sagði, oh ég er svo peppaður að fólk heldur örugglega að sé á einhverju,“ rifjar Lóa upp flissandi. „Ég var bara ein í Kringlunni og ég andaðist næstum því úr hlátri.“ 

Lóu fannst fyndið að hugsa til þess að maðurinn í Kringlunni héldi að allir væru að fylgjast með sér þó að það væri ólíklegt. „Mér fannst svo gaman að hann var í aðalhlutverki í bíómyndinni sinni, í Kringlunni að segja vini sínum hvað allir væru að fylgjast með honum og hvað hann var peppaður.“ Hún segist hafa glaðst við að heyra hann segja þetta og hugsað um þessa setningu lengi á eftir.  

Þrátt fyrir að gleðjast yfir fyndnum setningum á förnum vegi nýtur Lóa sín ekki endilega í margmenni. „Ég fór um daginn á tónleika í Hljómahöll og ég þekkti of marga fyrir utan húsið þannig að ég fór bara að svitna í lófunum af streitu.“ Hún segir að henni þyki samræður í boðum og þess háttar oft ekki skemmtilegar og bryddar því upp á umræðuefni sem henni hugnast betur. „Ég fer bara í eitthvað svona, sástu manninn sem datt þarna niður stigann. Ég upplifi sjálfa mig sem oft óvart óviðeigandi.“ 

Hélt hún myndi lesa yfir sig í LHÍ 

Lóa byrjaði ung að teikna og teiknaði mikið alla sína skólagöngu. „Ég teiknaði mjög mikið í grunnskóla, níðmyndir af fólki.“ Hún segir það athæfi sitt hafa verið mjög sniðuga leið til að tappa af alls konar gremju. „Það er svona mjög passíft agressíft hobbí.“ 

Lóa lærði myndlist í Listaháskóla Íslands og segir það hafa verið hollt fyrir sig. Hún ætlaði sér alltaf að verða teiknari en í Listaháskólanum mættu henni ýmsar áskoranir. Þegar hún vann að útskriftarverkefninu sínu og lokaritgerðinni varð álagið eiginlega of mikið. „Ég var í alvörunni komin í eitthvað svona ástand eins og þegar að maður heyrði að fólk las yfir sig og ég var líka með það á heilanum. Bara las hann einu orði of mikið eða?“ Hún segist hafa verið haldin raunverulegum ótta um að lesa yfir sig. „Ég hélt alla vega að ég væri að fara að lesa yfir mig.“ 

Til að fá útrás fyrir streitu á þessum tíma gerði Lóa myndasögur sem hún segir eiginlega sín fyndnustu verk. „Mér finnast þær svo fyndnar af því að ég skil ekki af hverju þær eru fyndnar.“ Þær séu óreiðukenndar og byggist á súrrealískum húmor. „Ég held að ég hafi verið undir of miklu álagi og mér líður ekki eins og ég hafi teiknað þetta. “ 

Keppnisskapið drap námsáhugann í New York 

Eftir Listaháskólann tóku við nokkur ár þar sem hún sinnti ýmsum skrítnum störfum, stofnaði hljómsveit, og fann sér að lokum nám erlendis sem hún var spennt fyrir. „Ég teiknaði einu sinni kort af þessu af því að ég var að halda fyrirlestur fyrir unga listnema. Af því að fólk heldur alltaf að maður valsi út úr einhverjum háskóla og viti hvað maður ætlar að gera.“ 

Lóa hélt til New York og stundaði nám við Parsons School of Design. Hún hafði áhuga á að teikna myndasögur og að gera barnabækur. Fyrst um sinn var hún mjög ánægð með námið en svo fóru að renna á hana tvær grímur. „Það var rosalega mikill keppnisandi þarna og alltaf verið að tala um einhverja teiknara eins og stórstjörnur. Ég á ógeðslega erfitt með þegar að allt er orðið að íþróttum, keppnisíþróttum. Mér finnst það svo leiðinleg pæling.“ 

Hún segir að efnahagshrunið hafi í raun bjargað henni frá skólanum. „Allt í einu var orðið of dýrt að vera þarna. Þá þurfti ég virkilega að meta það, á ég að klára eða bara klára ár tvö og drulla mér. Ég gerði það bara.“ Henni fannst ekki gaman að keppa í teikningu. „Það tekur allt það skemmtilega úr teikningu.“ 

Námið var að sjálfsögðu ekki alslæmt. „Ég reyndar hitti einn hippa þarna sem var svona underground comics kennari og það var allt önnur stemmning í því og það var ógeðslega skemmtilegt.“ Áfangar um myndasögur og barnabækur stóðu upp úr. „Svona stemmning sem ég skil, þar sem þú ert að díla við sjálfan þig og ert ekki að keppa við næsta mann, heldur að reyna að finna út úr því hvað þú ert að gera.“ 

Ballanserar óhugnað með pastellitum 

Lóa hefur enda sinnt bæði myndasögum og barnabókum eftir að hún sagði skilið við Parsons. Nýlega gaf hún út bókina Mamma kaka sem er saga um vini sem þurfa að hafa ofan af fyrir sér í vetrarfríi. Mamma Viggós má ekki vera að því að taka sér frí og vinirnir bregða á það ráð að baka mömmu köku, sem lifnar óvænt við. „Þetta er þriðja útgáfan af þessari bók. Fyrst var hún rosalega dark með svarthvítum teikningum,“ segir Lóa. Næsta útgáfa var öll í bundnu máli en að lokum áttaði hún sig á því að sögunni væri best fundinn farvegur í litríkum heimi. „Í raun og veru er óhugnanlegt að hlutir sem eru ekki lifandi lifna við, þannig að það þurfti að ballansera það með því að hafa hana pastellitaða.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir - Salka
Mamma kaka eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur.

Bókina kynnti Lóa í framhjáhlaupi á fundi með útgefanda sínum. „Ég var á fundi af því að ég var að gera aðra bók sem kemur út fyrir jólin og heitir Héragerði, sem er framhald af Grísafirði. Á fundi hjá Sölku sem gefur út bækurnar náði ég að búa til annan skilafrest inni í skilafrestinum af því að ég fór bara eitthvað að tala um Mömmu köku og tala um víðan völl eins og ég geri mikið.“ Skyndilega blöstu við Lóu tveir skilafrestir á tveim mismunandi verkefnum. Fyrri bókin er þegar komin út og Lóa bíður spennt eftir að hin seinni komi úr prentun.  

Væntingastýrir óhóflegri bjartsýni 

Lóa segist hafa metnað á skrykkjóttan hátt. „Auðvitað langar mig að hlutunum gangi vel, annars myndi ég ekki nenna að tala um það í útvarpi að ég hafi gefið út bók.“ Hún segist ekki vera bölsýnismanneskja, heldur þvert á móti óhóflega bjartsýn. „Ég er alveg sjúklega bjartsýn en svo er ég í stöðugri væntingastjórnun fyrir sjálfa mig af því að ég trúi að ef að mér dettur í hug að kaupa happaþrennu, þá sé ég að fara að vinna geðveikt mikinn pening.“ 

Hún trúir því að allt muni blessast og vera töfrum líkast. „Ég trúi svona hlutum og svo verð ég alltaf fyrir svo miklum vonbrigðum.“ Þess vegna hefur hún tamið sér væntingastjórnun. „Þannig að ég er alltaf að tala hluti niður.“ 

Ýktar útgáfur af sjálfinu 

Fram undan er jólabókaflóðið sem bíður Lóu handan við hornið. Hún fylgir þá eftir bókum sínum tveim, Mamma kaka og Héragerði. „Ég er aðallega að bíða eftir að Héragerði komi úr prentun og síðan er ég að fara að reyna að skilja hvernig maður kynnir bókina í venjulegu jólabókaflóði af því að það var covid þegar ég gaf út fyrstu barnabókina.“ Hennar bíða líklega mannamót og viðtöl. „Ég veit ekki hvernig fólk hegðar sér í þannig.“ 

Héragerði segir Lóa að svipi til hinnar vinsælu bókar Grísafjörður sem kom út 2020 og var meðal annars tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og barnabókaverðlauna Norðurlandaráðs. Hún segir frá tvíburum sem Lóa byggir á ýktum útgáfum af sjálfri sér. „Svona feiminn kvíðasjúklingur og einhver sturlaður extróvert sem veður inn í aðstæður og eignast 50 vini í sumarbúðum.“  

Lóa segist nota mikið af smáatriðum úr eigin æsku. „Ég man rosa vel alls konar smáatriði frá því að ég var lítil eða tel mig muna. Systir mín kallar mig minningaþjóf af því að hún er eldri og ég er búin að tileinka mér alls konar hluti sem gerðust ekki og eru sögur sem ég heyrði.“ 

Rætt var við Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur í Segðu mér á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Bjó með þýskum samsærismanni og fann sjálfa sig

Myndlist

Krefjandi að skrifa Skaup á fjarfundum

Bókmenntir

Hvers vegna glápa Reykvíkingar á mig?

Menningarefni

Vandræðagangur með hversdaginn