„Ég hlýt að vera eina manneskjan sem dílar við þetta“

Mynd: Aðsend / Aðsend

„Ég hlýt að vera eina manneskjan sem dílar við þetta“

17.09.2022 - 09:00

Höfundar

Skortur á sögum um langtímasambönd olli því að leikkonan Aníta Briem taldi sig lengi vera einu manneskjuna í heiminum sem glímdi við vandamálin sem komið geta upp í þeim. Hún ákvað því að skrifa sjónvarpsþætti um flækjustig og liti hjónabandsins.

Tökur standa yfir á nýjum íslenskum sjónvarpsþáttum í gamalli skemmu við Köllunarklettsveg í Reykjavík. Svo lengi sem við lifum heita þættirnir sem eru framleiddir af Glassriver og verða sýndir á Stöð 2. Aníta Briem skrifar handritið og fer með aðalhlutverkið í þáttunum og fjalla þeir um erfiðleika í langtímasamböndum og móðurhlutverkið.  

Aníta Briem og Katrín Björgvinsdóttir leikstjóri þáttanna ræða við Kristján Guðjónsson í Lestinni á Rás 1.  

„Þetta var bara ég að spyrja spurninga“ 

Hugmyndina að þáttunum fékk Aníta fyrir rúmum fimm árum og hefur unnið að þeim í hjáverkum. „Fyrir einu og hálfu ári byrjaði ég að setja hana í sjónvarpsseríuform og þá fannst mér hún allt í einu vera komin svolítið heim, þessi saga,“ segir Aníta. Þetta eru fyrstu þættirnir sem hún semur.  

„Það voru stórar spurningar sem komu upp á borð í mínu lífi og ég fór að setja þær niður á blað,“ segir Aníta. Hún segist ekki hafa lagt upp með að skapa verk með skrifum sínum heldur leysa ákveðnar lífsgátur fyrir sjálfa sig. „Þetta var í rauninni bara ég að spyrja spurninga. Um leið og ég setti það niður á blað fannst mér auðveldara að finna næstu spurningu.“ Hún telur að listaverk spretti alltaf af persónulegum rótum vegna þess að þau byggist á þörf listamannsins fyrir að kafa ofan í málefni eða spurningar. 

Fannst hún vera eina manneskjan sem glímdi við þessi vandamál 

Þættirnir fjalla um Betu sem var eitt sinn efnileg tónlistarkona en er komin á hálfgerða endastöð í lífinu. Hjónabandið er þreytt og henni finnst hún ekki vera sú móðir sem hún vill vera. „Hana vantar svolítið glæður eða eldmóð til að vekja sig aftur til lífsins,“ segir Katrín. 

Aníta segist hafa tekið eftir að sögur um langtímasambönd fái sjaldan athygli. „Það er rosalega mikið af sögum um ástina þegar hún kviknar því það er svo skemmtilegt og spennandi,“ segir hún. „En ég fann að þegar ég var á ákveðnum stað í mínu lífi var algjör skortur á sögum um þau mál sem koma upp þegar þú ert búinn að vera með einhverjum í langan tíma, eignast börn og alls konar dót sem fer að flækja lífið.“ Lengi vel taldi Aníta sig vera einu manneskjuna í heiminum sem glímdi við þessi vandamál vegna þess að hún sá hvergi sögur sem tókust á við þau.  

Þegar Aníta leit í kringum sig sá hún ekkert nema fólk að óska hvert öðru til hamingju með 25 ára brúðkaupsafmæli og allir virtust rosalega glaðir. „Hvað er þá að mér?“ segist hún hafa spurt sig, og hlær. „Þannig það var kannski drævið við að segja þessa sögu, að heiðra öll flækjustig og alla liti hjónabandsins og langtímasambandanna.“ 

Hafði aldrei lesið svona góð handrit  

Katrín bjó í Danmörku þegar hún frétti af verkefninu í gegnum framleiðandann, Baldvin Z . Hún hafði þá lokið við að skrifa handrit að þáttaröð upp úr lokaverkefni sínu í Danska kvikmyndaskólanum, sem var nýbúið að leggja niður eftir tveggja ára handritsvinnu. „Þá sagði Baldvin mér frá þessu verkefni og ég fékk að lesa handritin. Ég bara hafði aldrei lesið svona góð handrit.“ Hún var uppnumin og vildi endilega vera með.  

Aníta gerði þá kröfu að leikstjóri þáttanna hefði djúpstæðan skilning á efninu. „Af því að þetta er ótrúlega flókið og við erum að vinna mikið á gráum svæðum og í öllu því sem er ósagt,“ segir hún. Um leið og þær Katrín settust niður og byrjuðu að spjalla vissi Aníta að hún væri rétta manneskjan í starfið því hún hafi verið svo næm á efnistökin. 

„Hún bara neglir hverja einustu senu“ 

„Það er ótrúlega gaman að vinna með leikkonu sem veit allt um hverja einustu senu sem við erum að fara að gera,“ segir Katrín og bætir við að Aníta sé okkar allra besta leikkona. „Hún bara neglir hverja einustu senu því hún skilur efnið niður í kjölinn.“  

Að hafa handritshöfundinn sem aðalleikkonu þýði líka að þær geti breytt einstaka senum saman og bætt við nýjum línum ef þarf, sem Katrínu þykir virkilega skemmtilegt. „Eins og ég lít á það þá eru handritsskrifin sitt eigið sköpunarferli og svo þegar maður kemur á sett þá hefst nýtt sköpunarferli sem allir koma að,“ bætir Aníta við. Allir leggi sitt af mörkum og þannig breytist verkefnið í sífellu. Eftirvinnslan og klippingarnar séu svo sérstakt sköpunarferli og Anítu þykir dásamlegt að sjá hvernig hlutirnir þróast. „Þeir dýpka og verða betri eftir því sem allir þessi flottu listamenn í öllum deildum koma að og leggja sitt til.“  

Mynd með færslu
 Mynd: Lilja Jóns - Aðsend
Tökudagur í Húsdýragarðinum.

Heimilið eins og einn fjölskyldumeðlimanna 

Heil íbúð var sett upp inni í vöruskemmu við Sundahöfn í Reykjavík. Þetta er ekki alltaf gert við framleiðslu íslenskra sjónvarpsþátta en vegna þess hve heimilið er ríkur þáttur í sögunni var ákveðið að fara þessa leið. „Eðli sögunnar samkvæmt er hún mikið heima við svo við ákváðum að leggja mikið í það og leikmyndahönnuðurinn, Heimir Sverrisson, byggði þessa geggjuðu íbúð,“ segir Katrín. Hægt er að færa til veggi sem auðveldar upptökuferlið og allt var hannað eftir kúnstarinnar reglum til að skapa grípandi myndheim.  

„Heimilið er svo stór partur af sögunni og er eiginlega eins og annar fjölskyldumeðlimur og heldur utan um þau og stendur fyrir hvar þau eru í lífinu,“ segir Aníta. „Við erum ótrúlega heppin að fá rosalega gott fólk með okkur í lið og að framleiðendur okkar voru tilbúnir að fara í þessa útfærslu með okkur,“ bætir hún við.    

Í leikarahópnum eru sænski leikarinn Martin Wallström, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Mikael Kaaber, Hilmir Snær Guðnason, Ólafur Darri og Þorsteinn Bachmann ásamt nokkrum belgískum leikurum. „Við erum með svakalegt leikaralið,“ segir Aníta og telur þær ótrúlega heppnar. Tökurnar eru hálfnaðar og því til mikils að hlakka. 

Rætt var við Anítu Briem og Katrínu Björgvinsdóttur í Lestinni á Rás 1. Hægt er að hlýða á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

„Magnað hvernig eineltið situr í mér“