„Við eigum bestu stuðningsmenn í heimi“
Sandra segir þátttökuna á EM í sumar með því skemmtilegasta sem hún hafi gert. Munurinn á því að spila á stórmóti á borð við Evrópumeistaramótið og leikjum heima sé mjög mikill.
„Það er svolítið mikið stærra. Það voru miklu fleiri áhorfendur og kannski svolítið betri lið þannig það var svolítið skemmtilegt“
Íslenska kvennalandsliðið keppti á móti Belgíu, Frakklandi og Hollandi og gerði jafntefli við öll liðin. Sandra segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi.
„Já, ég held við eigum bestu stuðningsmenn í heimi. Það er alveg klárt. Við fundum það bæði á vellinum, á leikjunum sjálfum, og bara hérna heima. Maður fann alveg að allir voru að hvetja okkur.“
Ekki hrædd við boltann
Sandra byrjaði að æfa fótbolta fimm ára gömul, þá í miðjunni.
„Ég var ágæt. Svo fór ég einhvern tíma í mark þegar það vantaði markmann og svo þegar við fórum á stóran völl var ég eiginlega bara valin því ég var stærst. Og ekki hrædd við boltann, það skiptir máli.“
Það var alltaf draumurinn að spila í atvinnumennsku og Sandra segir að það skemmtilegasta við að spila fótbolta sé að vinna.
Hvergi nærri hættar
Þó EM ævintýri Söndru og liðsfélaga hennar sé tiltölulega nýlokið eru þær hvergi nærri hættar.
„Við erum að reyna að komast á HM, svo vonandi er það bara næst, að komast á HM sem verður haldið næsta sumar.“
Íslenska kvennalandsliðið komst skrefi nær því markmiði á föstudaginn með 6-0 sigri á Belarús. En í kvöld ráðast úrslitin þegar þær mæta Hollendingum í Ultrecht klukkan 18:35 á íslenskum tíma. Landsliðin tvö keppa um sæti á HM næsta sumar, sem haldið verður í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi.
Viðtal Krakkafrétta við Söndru Sigurðardóttur má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan. Krakkafréttir verða á dagskrá klukkan 18:45 alla mánudaga-fimmtudaga í vetur.