Þriðja hver kona orðið fyrir áreitni í vinnunni

01.09.2022 - 20:00
Mynd: Kikkó / RÚV
Um þriðjungur kvenna á Íslandi hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustað á lífsleiðinni, samkvæmt einni viðamestu rannsókn sem gerð hefur verið á heimsvísu. Lektor við Háskóla Íslands og ábyrgðarhöfundur rannsóknarinnar segir mikilvægt að tryggja öryggi kvenna á vinnustöðum og að samstarfsfólk hafi augun opin fyrir ósæmilegri hegðun.

15.799 konur tóku þátt í rannsókninni. Hún leiddi í ljós að konur á opinberum vettvangi verða oftar fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustöðum og þá eru hinsegin konur líklegri til að verða útsettar heldur en gagnkynhneigðar. Kynferðisleg áreitni og ofbeldi gagnvart konum reyndist jafnframt algengara á vinnustöðum með vaktafyrirkomulagi og óreglulegum og löngum vinnutíma en annars staðar.

Þannig hafa tæplega:

16 prósent kvenna sem starfa á opinberum vettvangi, til dæmis konur í sviðslistum, blaðamennsku, stjórnmálum eða íþróttum, orðið fyrir kynferðislegu áreiti eða ofbeldi í vinnunni,

Um 15 prósent kvenna í ferðaþjónustu,

tæplega 14 prósent kvenna í réttarvörslu og öryggisgæslu,

og um 12 prósent kvenna í heilbrigðisþjónustu. 

Gögnin í rannsókninni eru fengin úr Áfallasögu kvenna, rannsóknarverkefni sem vísindamenn við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands standa að. Tæplega 30 prósent kvenna á aldrinum 18 til 69 ára með skráð símanúmer eða heimilisfang tóku þátt í rannsókninni. Gagnasöfnun hófst í mars 2018 en spurningu um kynferðislega áreitni eða ofbeldi á vinnustað var bætt við spurningalistann í maí 2018 og 15.799 konur svöruðu henni. 

Rótgróið félagslegt vandamál

„Við vitum að kynferðisleg áreitni og ofbeldi gegn konum er mjög rótgróið félagslegt vandamál sem hefur verið til staðar í gegnum aldirnar, því miður. Og það sem virðist vera helsti forspárþáttur fyrir þessu er vinnumenningin og þá er mjög mikilvægt, við sjáum það á erlendum rannsóknum, að á vinnustöðum þar sem eru skýr viðmið um að þetta sé óheimilt og starfsmenn séu upplýstir um hvaða afleiðingar slík hegðun hefur að þar er þetta óalgengara,“ segir Edda Björk Þórðardóttir, lektor við HÍ og ábyrgðarhöfundur rannsóknarinnar. 

Rannsóknin er unnin af vísindamönnum við Háskóla Íslands og er ein sú stærsta sinnar tegundar - á heimsvísu.

Greint er frá niðurstöðunum í vísindaritinu Lancet í dag. Þar kemur fram að þriðja hver kona hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustað, og átta prósent höfðu orðið fyrir slíku á núverandi vinnustað. Þá voru yngri konur líklegri til að greina frá áreitni en ofbeldi. 

„Það virðist vera kynslóðamunur hvernig merkingu konur leggja í áreitni eða ofbeldi vegna þess að áður fyrr, þegar konur voru áreittar kynferðislega á vinnustað, að þá var gert lítið úr þessari hegðun. Og þetta var normaliserað.“

Enginn gerði neitt

Edda segir mikilvægt að fólk sé vakandi fyrir ósæmilegri hegðun á vinnustað og að atvinnurekendur bregðist rétt við. 

„Mér er minnisstætt að þegar ég las frásagnirnar í MeToo, að þá var tónlistaskona sem greindi frá því að hafa verið á bar að syngja og fremst voru karlmenn sem öskruðu á hana hvað þeir ætluðu að gera við hanha. Hún varð hrædd og átti erfitt með að halda takti, man ég að hún sagði. Þegar hún klárar og hunsar þá, þá fara þeir að öskra hvað hún sé ógeðsleg. Það sem var athyglisvert þarna er að það var enginn sem brást við. Þeim var ekki hent út af staðnum. Það var enginn þarna sem gerði eitthvað. Og þetta er hennar vinnuumhverfi,“ segir Edda Björk. 

„Það er mikilvægt að við sem almennir borgarar séum meðvituð um þetta og bregðumst við þegar við verðum vitni að þessu,“  segir hún. 

sunnaks's picture
Sunna Karen Sigurþórsdóttir
Fréttastofa RÚV