Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Stýrivextir hækkaðir um 0,75 prósentustig

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti um 0,75 prósentustig. Stýrivextir eru nú 5,5 prósent og hafa ekki verið hærri í sex ár. Þetta er áttunda hækkunin á rúmu ári en flestir greiningaraðilar voru sammála um að þess væri að vænta.

Seðlabankastjóri var skýr um það við síðustu hækkun í júní að vextir yrðu áfram hækkaðir eins oft og þurfa þykir til þess að ná verðbólgu niður. Verðbólga stendur nú í 9,9 prósentum. Hún hefur ekki verið hærri í þrettán ár og er langt yfir 2,5 prósenta markmiði Seðlabankans. Húsnæðisverð vegur þar tæpan helming. Greiningaraðilum hefur ekki farið saman á um hvort verðbólga hafi náð hámarki og fari nú að hjaðna eða hvort hún rjúfi tíu prósenta múrinn á næstunni. 

Spáir 11% verðbólgu undir lok árs

Peningastefnunefnd segir verðbólguhorfur hafa áfram versnað og hún gerir ráð fyrir að hún nái hámarki undir lok árs í tæplega 11%. Það endurspegli kröftugri umsvif í þjóðarbúskapnum en gert var ráð fyrir í maí og þrálátari hækkanir á húsnæðismarkaði auk meiri alþjóðlegrar verðbólgu. 

Nefndin telur að til þess að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma þurfi að  herða taumhald peningastefnunnar enn frekar. Stefnan muni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Þar skipti ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum miklu um hve hátt vextir þurfa að fara. 

Fréttin hefur verið uppfærð.