Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Yngsti hrútaþuklarinn til að komast á pall

23.08.2022 - 16:19
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Jónsson
Það urðu óvænt úrslit á Íslandsmótinu í hrútaþukli sem haldið var á Ströndum um helgina. Nýr meistari var krýndur, Gunnar Steingrímsson frá Stóra-Holti í Fljótum. Ungur Hólmvíkingur varð í öðru sæti, Marinó Helgi Sigurðsson, en hann er yngsti keppandinn frá upphafi til að komast á pall í flokki vanra hrútaþuklara, fimmtán ára að aldri.

Alls kepptu 35 í þeim flokki en 17 í flokki þeirra sem kallaðir eru óvanir og hræddir. Elín Þóra Stefánsdóttir frá Bolungarvík bar þar af, Eyfirðingurinn Katrín Jónsdóttir varð önnur og Strandamaðurinn Bjarnheiður Fossdal þriðja. 

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Jónsson

Talið er að rúmlega 300 gestir hafi komið í Sauðfjársetrið í Sævangi og fylgst með keppninni en hún hefur fallið niður síðustu tvö ár vegna covid, og ekki að undra því snerting og nánd er lykilatriði í hrútadómum. Hrútaþukl er ein leið bænda til að ákveða hvaða hrútar verði settir á í vetur, það er því ekki aðeins mikið undir fyrir þuklara, því hjá hrútunum getur dómurinn skilið milli feigs og ófeigs. 

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Jónsson