Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Andrew Tate úthýst af samfélagsmiðlum

20.08.2022 - 13:35
Mynd með færslu
 Mynd: WikiMedia
Andrew Tate, fyrrverandi sparkboxari og umdeildur áhrifavaldur, hefur verið settur í bann á samskiptamiðlunum TikTok, Facebook og Instagram vegna brota á reglum miðlanna. Hann hefur ítrekað birt afar umdeilt myndefni á miðlunum þremur þar sem hann viðrar hugmyndir sem teljast ofbeldis- og hatursfullar.

Instagram og Facebook birtu enga skýringu á því hvað olli því nákvæmlega að Tate var settur í bann. Upplýsingafulltrúi hjá TikTok sagði kvenhatur og aðrar hatursfullar skoðanir ekki samræmast gildum miðilsins. Þá vinni TikTok að því að fjarlægja myndbönd af Tate sem aðrir hafi sett inn.

Hinn hálffertugi Tate hefur verið virkur á samfélagsmiðlum um nokkurra ára skeið en ekki notið sérstakra vinsælda fyrr en á þessu ári. Efni hans á TikTok fékk milljarða spilana á síðustu mánuðum.

Þá var Tate rekinn úr raunveruleikasjónvarpsþáttunum Big Brother árið 2016 eftir að myndbönd af honum fóru í dreifingu þar sem hann virtist ráðast á konu. Hann hafnaði þeim ásökunum þó alfarið.

Þórgnýr Einar Albertsson