Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vilja ekki stöðugan straum ferðamanna eins og á Íslandi

epa000506706 The boat with Danish Minister for Environment Connie Hedegaard on board seen on icy waters outside Ilulissat in Greenland during a one day sailing cruise Wednesday, August 17. 2005 round. The Danish minister has invited her colleagues from 20 countries on a four day conference to a informal discussion.  EPA/BENT PETERSEN
 Mynd: EPA - RÚV
Ferðamenn flykkjast í auknum mæli til Grænlands, til þess að berja augum jökla og ósnortna náttúru. Ráðamenn á Grænlandi vilja þó hægja á ferðamannastraumnum og segjast ekki vilja feta í fótspor Íslendinga í þessum málum.

Mörg þúsund ferðamenn suma daga

Vinsældir Grænlands meðal ferðamanna hafa farið vaxandi undanfarin ár. Sem dæmi má nefna bæinn Ilulissat við Disko-flóa, á vesturströnd Grænlands, þar sem hrátt landslag, samspil kletta og jökla, laðaði að fimmtíu þúsund ferðamenn árið 2021. Það er tífaldur íbúafjöldi í flóanum. Flestir ferðamennirnir koma til landsins með skemmtiferðaskipum, oft mörg þúsund á dag.

Viðkvæm náttúra má illa við ferðamannastraumnum

Áhrif loftslags eru einna greinilegust á norðurslóðum, hlýnunin síðustu fjörutíu ár hefur verið fjórfalt hraðari en annars staðar á jörðinni, og Grænlandsjökull hopar hraðar en nokkru sinni. Yfirvöld á Grænlandi hafa áhyggjur af ferðamannastraumnum, annars vegar vegna ágangs á viðkvæma náttúruna og hins vegar vegna álags á innviði smáþjóðar.

Vilja fara aðra leið en Íslendingar

Palle Jeremiassen, bæjarstjóri í Ilulissat, segir það mikilvægt að takmarka komu ferðamanna og mengandi skemmtiferðaskipa, náttúru og bæjarbúa vegna. Hann ræddi við fréttamenn AFP og sagði Grænlendinga ekki vilja fara sömu leið og Íslendingar.

„Við viljum ekki vera eins og Íslendingar, við viljum ekki ferðamannaflóð. Við viljum takmarkaðan straum ferðafólks. Við þurfum að finna leiðina til þess“ segir Jeremiassen.

Jeremiassen leggur til að í Ilulissat taki aðeins á móti einu skipi á dag, eða að hámarki þúsund ferðamönnum í einu. Nýlega komu sex þúsund ferðamenn til Ilulissat á einum degi, en innviðir smábæjarins ráða illa við svo mikinn fjölda að sögn Jeremiassens.