Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sex fórust í aftakaveðri á Korsíku

19.08.2022 - 01:21
epa10127685 France's Interior Minister Gerald Darmanin (C) looks at a fallen tree as he visits the Sagone camping site in Sagone, on the French Mediterranean island of Corsica, 18 August 2022, where a tree fell on a bungalow during storms killing one person. Brutal storms with winds gusting up to 224 kilometres per hour (140 miles per hour) left five people dead on the French Mediterranean island of Corsica earlier on 18 August 2022, including a 13-year-old girl who was killed when a tree fell onto her campground bungalow, authorities said.  EPA-EFE/EMMANUEL DUNAND / POOL  MAXPPP OUT
Gerald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands, virðir fyrir sér tré sem stormurinn reif upp með rótum Mynd: EPA-EFE - AFP POOL
Sex hafa fundist látin á og við frönsku Miðjarðarhafseyjuna Korsíku eftir að foráttuveður gekk þar yfir á fimmtudagsmorgun og tugir slösuðust í látunum. Eftir þriggja daga látlaust vatnsveður skall ógurlegt þrumuveður á eyjunni í gærmorgun með hagléli, úrhellisrigningu, þrumum og eldingum og vindhraða upp á 62 metra á sekúndu þegar verst lét.

Fjögur hinna látnu - þar á meðal 13 ára stúlka - dóu á eyjunni í slysum sem rekja má beint til stormsins, og tveir karlmenn drukknuðu undan ströndum eyjunnar.

Neyðarköll og beiðni um aðstoð bárust frá ríflega 100 bátum og skipum meðan á þessu gjörningaveðri gekk, segir í frétt AFP, og um 350 manns var saknað þegar mest var, að sögn franska innanríkisráðherrans, sem heimsótti Korsíku þegar veðrið var gengið niður. Þau fundust þó öll heil á húfi.

Ýmist í ökkla eða eyra

Vatnsveðrið gekk reyndar líka yfir hluta franska meginandsins í gær og var afar kærkomið eftir margra vikna þurrka og gróðurelda. Sumum þótti þó nóg um, því sumstaðar rigndi meira á nokkrum klukkustundum en nokkra síðustu mánuði samanlagt.