Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segist vilja leita aftur í styrkleika flokksins

19.08.2022 - 19:20
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend - Baldur Kristjáns
Húsnæðismálin, heilbrigðismálin, samgöngur, góð atvinna og kjör eru kjarnamál sem Samfylkingin þarf að einbeita sér að. Þetta segir Kristrún Frostadóttir sem tilkynnti í dag að hún hygðist bjóða sig fram til formennsku í flokknum.

Opna þurfti út í stóra salnum í Iðnó svo margir voru samankomnir til þess að hlýða á Kristrúnu Frostadóttur. Þarna voru nokkrir núverandi forystumenn í Samfylkingunni og margir fyrrverandi með áratugareynslu.

Flestir bjuggust við að hinn 34 ára hagfræðingur sem settist í fyrsta sinn á Alþingi síðast liðið haust myndi bjóða sig fram. Núverandi formaður, Logi Einarsson ætlar ekki að bjóða sig fram og heldur ekki Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. 

„Ég ætla að gefa kost á mér og bjóða mig fram til formanns í Samfylkingunni, jafnaðarmannaflokki Íslands,“ sagði Kristrún.

Þér finnst að jafnaðarmenn eigi að fara aftur að kjarnanum, þessum kjarnahluta, hvers er sá hluti? 

„Við eigum auðvitað bara að fara aftur í styrkleika okkar sem eru þessi grunngildi jafnaðarmennsku, bara kjör ósköp venjulegs fólks í landinu. Og ég er alveg handviss um það að ef að stefna okkar tekur bara mið af því hvað fólk er að hugsa í sínu daglega lífi. Að við séum með skýrar áherslur, færri mál en af alefli, þá mun það skila árangri.“
 
Hvaða málaflokkar eru þetta sem þér eru ofarlega í huga?

„Það liggur auðvitað fyrir að við erum með stórar áskoranir í heilbrigðismálunum. Það þarf að koma fram með trúverðugar lausnir í húsnæðismálum. Og svo þarf auðvitað að vera með öfluga efnahagsmálastefnu sem er andsvar við stöðunni núna í ríkisfjármálapólitíkinni vegna þess að þetta er ástæðan fyrir því að við erum í strandi með mörg af kerfunum okkar. Það er bara fjármögnunin.“

Heldurðu að þetta verði rússnesk kosning hjá ykkur, að það verði ekki annað mótframboð? 

„Nú bara hef ég ekki hugmynd um hvernig þetta þróast. Ég auðvitað bara finn fyrir gífurlegum stuðningi. Það eru tveir mánuðir í landsfund. Þannig að við verðum bara að gefa þessu tíma og sjá hvernig baráttan eða framboðið þróast.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV