Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sanna Marin fór í fíkniefnapróf - Öðru myndbandi lekið

19.08.2022 - 13:50
FILE - Finland Prime Minister Sanna Marin attends a joint press conference with Italian Premier Mario Draghi at Chigi palace, Premier's office, in Rome, Wednesday, May 18, 2022. Finland’s prime minister is ruling out taking any drugs during a party in a private home with some friends, after a video showing six people dancing in front of camera, including Finnish Prime Minister Sanna Marin, was leaked. "I’m disappointed that they’ve become public. I spent the evening with friends. Partied, pretty wild, yes. Danced and sang", she was quoted as saying by Finnish broadcaster YLE on Thursday, Aug. 18, 2022. (AP Photo/Andrew Medichini, File)
 Mynd: AP - RÚV
Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, fór í fíkniefnapróf í dag og von er á niðurstöðu úr því eftir viku. Hún vísar á bug öllum ásökunum um fíkniefnanotkun, hún hafi ekkert að fela og hafi aldrei notað önnur vímuefni en áfengi.

Gagnrýnd vegna „djamm-myndbands“

Myndband af forsætisráðherranum að dansa og skemmta sér með vinum sínum fór í dreifingu í netheimum í síðustu viku. Fljótlega fór að bera á gagnrýni. Sumum þótti hegðun hennar ekki sæma forsætisráðherra, en aðrir gengu lengra og sökuðu hana um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna.

Drakk áfengi en hefur aldrei notað fíkniefni

Því hefur Sanna Marin neitað staðfastlega. Hún segist hafa drukkið áfengi þetta kvöld, en hún hafi hvorki neytt fíkniefna né vitað til þess að neinn í hennar hópi hafi verið með fíkniefni í fórum sínum.

Hún svaraði spurningum blaðamanna í beinni útsendingu finnska ríkisútvarpsinu í dag. Þá ítrekaði hún að hún hafi ekki sinnt neinum embættisstörfum þessa helgi, hún hafi verið í fríi, sem hún hafi varið í góðra vina hópi. Ekkert ólöglegt hafi farið fram.

Þungbært að sitja undir ásökunum

„Á síðustu dögum hafa komið fram alvarlegar ásakanir um meinta fíkniefnanotkun mína. Þessar ásakanir hafa verið mér þungbærar,“ sagði Sanna Marin á blaðamannafundinum.

„Ég hef ákveðið að undirgangast fíkniefnarannsókn til þess að svara þessum ásökunum fyrir fullt og allt, þó mér þyki sú krafa í grunninn ósanngjörn,“ sagði forsætisráðherrann.

Öðru myndbandi lekið af djamminu

Öðru myndbandi af Sönnu Marin, forsætisráðherra Finnlands, var lekið til fjöldmiðla í dag. Þar sést hún dansa við finnska tónlistarmanninn Olavi Uusivirta. Hún hefur ekki tjáð sig um það myndband enn sem komið er, en á fundinum í dag sagði hún ekkert athugavert vera við það hún ætti einkalíf utan vinnu, þar sem hún dansaði og syngi. Hún sagðist vonsvikin yfir því að myndböndin, sem hafi verið tekin í einkasamkvæmi, hafi ratað fyrir augu almennings.

Fréttin var uppfærð klukkan 15:30.