Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Erdogan lýsir afdráttarlausum stuðningi við Úkraínu

epa10127800 Turkish President Recep Tayyip Erdogan (L), Ukrainian President Volodymyr Zelensky (C) and UN Secretary-General Antonio Guterres (R) attend a joint press conference in Lviv, Ukraine, 18 July 2022. Turkish President Erdogan and UN Secretary-General Guterres arrived in Ukraine to meet with President Zelensky to talk on improving the grain initiative and the situation around the Zaporizhzhia nuclear power plant.  EPA-EFE/MYKOLA TYS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti lýsti í gær yfir afdráttarlausum stuðningi Tyrkja við Úkraínu í stríðinu við Rússa. Erdogan lýsti þessu yfir í Lviv í Úkraínu, þar sem hann fundaði með Volodymyr Zelensky Úkraínuforseta og Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Aðeins eru tvær vikur síðan Erdogan hét því á fundi með Vladimír Pútín Rússlandsforseta að auka og efla stjórnmála- og viðskiptasamband Tyrkja og Rússa.

Á fundinum með þeim Zelensky og Guterres sagði hann hins vegar að Tyrkir styddu Úkraínu í þessu stríði. „Á meðan við höldum áfram tilraunum okkar til að finna lausn [á Úkraínustríðinu] verðum við áfram í liði með úkraínskum vinum okkar,“ sagði Erdogan. Þá hét hann því að Tyrkir myndu aðstoða Úkraínumenn við að endurreisa vegi, brýr og aðra innviði landsins sem eyðilagst hafa í stríðinu.