Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Boða nýja hergagnasendingu til Úkraínu

19.08.2022 - 07:16
epa10127654 A local man inspects debris of private buildings and recreation center after a recent rocket hit in Zatoka settlement near the South Ukrainian city of Odesa, 18 August 2022, amid the Russian invasion. At least four people were injured, according to the State Emergency Service. Russian troops on 24 February entered Ukrainian territory, starting a conflict that has provoked destruction and a humanitarian crisis.  EPA-EFE/STR
Maður stendur í rústum húsa í íbúðahverfi í úkraínsku hafnarborginni Odesa og virðir fyrir sér tjónið Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandarísk stjórnvöld boða enn meiri hernaðaraðstoð við Úkraínu, að andvirði 800 milljóna Bandaríkjadala, jafnvirði ríflega 110 milljarða íslenskra króna. Reuters-fréttastofan hefur þetta eftir þremur ónafngreindum heimildarmönnum sem sagðir eru öllum hnútum kunnugir.

Í fréttinni segir að Joe Biden Bandaríkjaforseti hyggist gefa út forsetatilskipun sem heimilar að gefa Úkraínumönnum hergögn af ýmsu tagi sem þegar eru til í hergagnageymslum Bandaríkjahers en ólíklegt þykir að grípa þurfi til.

Heimildarmennirnir segja þetta að líkindum verða tilkynnt formlega í næstu viku, og leggja áherslu á að samsetning og umfang hernaðaraðstoðarinnar geti breyst í millitíðinni. Embætti Bandaríkjaforseta hefur ekki tjáð sig um þessar fullyrðingar. Bandaríkin hafa þegar sent Úkraínumönnum hergögn sem metin eru á mörg hundruð milljarða króna. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV