Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Björk sakar Katrínu um að hafa svikið sig og Gretu

19.08.2022 - 10:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Björk Guðmundsdóttir, tónlistarkona, segir Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, hafa svikið sig og sænska aðgerðarsinnan Gretu Thunberg um loforð um að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum 2019.

Björk greinir frá þessu í viðtali í The Guardian sem birtist í morgun. Hún segir  þær Thunberg hafa verið með samkomulag við Katrínu um að forsætisráðherra myndi lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum á viðburði 2019. Vonuðust þær til að það myndi setja þrýsting á stjórnvöld hérlendis um aðgerðir í loftslagsmálum. 

Þegar Katrín átti að gefa út yfirlýsinguna hafi hún hætt við á seinustu stundu að sögn Bjarkar. „Ég treysti henni, kannski af því að hún er kona, og þegar hún flutti ræðuna minntist hún ekkert á loftslagsmál. Ég var brjáluð af því að við höfðum skipulagt þetta í marga mánuði,“ segir Björk í viðtalinu en blaðamaður tekur fram að hún hafi nánast hreytt út úr sér orðunum af reiði. 

Hún segist hafa viljað styðja Katrínu, það sé erfitt að vera kona og forsætisráðherra, en að hún hafi ekkert gert fyrir umhverfið. 

Í viðtalinu kemur ekki fram við hvaða tilefni Katrín hafi átt að lýsa yfir neyðarástandi í loftsmálum en þetta ár flutti hún ræðu á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York. Greta Thunberg flutti einnig ræðu á ráðstefnunni þar sem hún sagði ráðamönnum til syndanna.

Fréttin hefur verið uppfærð.

ingibjorgsg's picture
Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir
Fréttastofa RÚV