Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tap á vátryggingarhluta VÍS

18.08.2022 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tryggingafélagið VÍS hagnaðist um 549 milljónir króna á fyrri hluta árs, samanborið við 4,5 milljarða árið áður. Tap var á vátryggingastarfsemi félagsins. Kvika, sem á tryggingafélagið TM, hagnaðist um 1,7 milljarða sem er þó samdráttur frá fyrra ári.

 

Félögin VÍS og Kvika birtu bæði árshlutareikning vegna fyrri hluta árs í dag. Hagnaður VÍS á fyrstu sex mánuðum árs var 549 milljónir, sem er mikill samdráttur frá fyrra ári.

Eilítið tap var á vátryggingarhluta VÍS eða sem nemur tveimur milljónum, en aðrir hlutar félagsins gáfu betur, einkum hækkanir í óskráðum eignum eins og fisktæknifyrirtækinu Kerecis og nýsköpunarfyrirtækinu Controlant.

Kvika hagnaðist um 1,7 ma.

Á sama tíma hagnaðist Kvika banki um 1,7 milljarða króna eftir skatt og var arðsemi efnislegs eigin fjár 10 prósent.

Félagið uppfærði afkomuspá sína í síðasta mánuði vegna lægri fjárfestingartekna en gert hafði verið ráð fyrir enda aðstæður á verðbréfamörkuðum ekki beysnar.

Áður hafði félagið búist við um 1,8 milljörðum hærri hagnaði á öðrum ársfjórðungi.

Hækkanir á olíuverði bíta ekki

Eimskip birti einnig uppgjör í dag. Þrátt fyrir verulegar kostnaðarhækkanir vegna hærra olíuverðs, sem og samdrátt í útflutningi frá Íslandi vegna stríðsins í Úkraínu,

var afkoma í gámasiglingakerfinu góð. Tekjur félagsins jukust um 18,2 milljarða, en útgjöld aðeins um 14,2.

Því skilaði félagið nærri tvöföldum hagnaði á við fyrri hluta síðasta árs, eða 35,4 milljónum evra. Tæpum fimm milljörðum króna.

 

 

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV