Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fulltrúar EP Power Minerals væntanlegir til landsins

18.08.2022 - 18:28
Mynd með færslu
 Mynd: Efla
Fulltrúar eigenda þýska fyrirtækisins sem hyggja á umfangsmikla efnistöku vikurs á Mýrdalssandi eru væntanlegir hingað til lands, til fundar við sveitarstjórn Mýrdalshrepps. Þetta segir sveitarstjóri Mýrdalshrepps við fréttastofu.

Hreppurinn skilaði umsögn um málið til Skipulagsstofnunar þar sem lagst er gegn því að efnistakan fari fram í núverandi mynd.

Í umhverfismatsskýrslu um verkefnið, sem verkfræðistofan Efla gerði, kemur fram að 30 vöruflutningabílar muni flytja vikur frá Mýrdalssandi til Þorlákshafnar, allan sólarhringinn allt árið um kring. Það þýðir að vörbílar muni aka milli Þorlákshafnar og Mýrdalssands, ýmist tómir eða fulllestaðir af vikri, á sjö til átta mínútna fresti. Vikurforði Mýrdalssands dugir til slíkra flutninga í um 100 ár miðað við umhverfismatsskýrslu Eflu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Verkefnið skapi ekki næg störf í núverandi mynd

Í umsögn sveitarstjórnar segir að ljóst sé að umferðarþunginn sem hljótist af framkvæmdinni hafi verulega neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu sem og hljóðvist í þéttbýli. Auk þess sé verkefnið ekki til þess fallið að skapa störf í hreppnum. Einar Freyr Elínarsson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, segir við fréttastofu að sveitarstjórn sé mjög opin fyrir því að fjölga störfum í hreppnum og gera samsetningu atvinnulífsins margbrotnari.

Í kórónuveirufaraldrinum hafi um helmingur íbúa misst vinnuna og verði gott að raða eggjunum í fleiri körfur, eins og hann orðar það. Hins vegar sé ekki útlit fyrir að framkvæmdin skapi sérstaklega mörg störf í hreppnum miðað við núverandi útfærslu. Því þurfi að finna lausnir á því. 

Sveitarstjórn Mýrdalshrepps mælist enda til þess í áðurnefndri umsögn, að verkefnið allt verði endurskoðað. Þá einnig með tilliti til útflutnings vikursins. Í umsögninni segir að mögulegt sé að skoða byggingu hafnar í Vík, þaðan sem flytja mætti vikurinn úr landi og koma þannig í veg fyrir umfangsmikla flutninga til Þorlákshafnar.

Samstaða á Suðurlandi um efasemdir 

Skipulagsstofnun óskaði eftir umsögn Mýrdalshrepps um málið og fleiri sveitarfélaga sömuleiðis; frá Ölfusi, Árborg, Ásahreppi, Flóahreppi, Rangárþingi eystra og Rangárþingi ytra. Ekkert annað sveitarfélag hefur enn skilað inn umsögn um málið og birt á vef sínum en Mýrdalshreppur. Skilafrestur er til 26. september.

Þá óskaði Skipulagsstofnun eftir umsögn um málið frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Landgræðslu ríkisins, Minjastofnun Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Samgöngustofu, Umhverfisstofnun og Vegagerðarinni.

Í samtölum fréttastofu við hina ýmsu sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi er samstaða um almennar efasemdir við verkefnið eins og það er í núverandi mynd. Ráðherra umhverfismála hefur gert það sömuleiðis.