Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fár í Finnlandi vegna skemmtanalífs forsætisráðherra

18.08.2022 - 15:12
epa09939756 Finland's Prime Minister Sanna Marin attends a signing ceremony at Japan?s Prime Minister (not pictured) official residence in Tokyo, Japan, 11 May 2022. Both parties signed a working holiday agreement.  EPA-EFE/FRANCK ROBICHON / POOL
 Mynd: epa
Fjölmiðlar í Finnlandi eru undirlagðir af fréttum af skemmtanalífi forsætisráðherrans Sönnu Marin. Myndband sem sýnir hana sletta úr klaufunum fór í dreifingu á netinu. Þar sést hún dansa í góðra vina hópi við lag finnsku poppstjörnunnar Antti Tuisku og virðist njóta sín.

Myndbandinu var hlaðið upp í hringrásina, story, á Instagram af einhverjum partígesti. Það er ekki sérlega frábrugðið öðrum myndböndum sem venjulega birtast þar. Allir sem hafa opnað Instagram hafa vafalítið séð sams konar myndbönd milljón sinnum. Nema þá fyrir þær sakir að sú sem dansar, Sanna Marin, er forsætisráðherra.

Marin hefur orð á sér fyrir að vera skemmtanaglöð. Henni finnst ekki leiðinlegt að fara niður í bæ að dansa eða klæða sig í leðurjakkann og sækja útihátíð. En hvert er vandamálið? Þurfa forsætisráðherrar að vera bældir og miðaldra?

Vangaveltur um eiturlyfjanotkun

Sumum þykir þessi hegðun í það minnsta ekki sæma forsætisráðherra. Aðrir, eða kannski þeir sömu, lýsa yfir áhyggjum af eiturlyfjanotkun. Í myndbandinu heyrist einn gestur tala um jauhojengi, sem mætti þýða sem mjölgengið. Orðið mjöl (jauho) er gjarnan notað sem slangur um ýmis eiturlyf.

Mikko Kärna, þingmaður Miðflokksins, sem á aðild að ríkisstjórn Marin, hefur hvatt hana til að undirgangast eiturlyfjapróf, og undir það hafa þingmenn þjóðernisflokksins Sannra Finna tekið.

Sanna Marin ræddi málin við blaðamenn í finnska þinginu í morgun. Þar sagðist hún vonsvikin yfir því að einhver hefði deilt myndböndunum á netinu. „Ég varði kvöldinu með vinum, dansaði og söng, kannski dálítið villt jú.“ Þá þvertók hún fyrir að nota eiturlyf og segist ekki vita til þess að aðrir í samkvæminu hafi gert það. Hún viti ekki hvað mjölgengið sé.

Aðspurð segir hún það vera finnsku þjóðarinnar að dæma hvort það sé „forsætisráðherra sæmandi“ að sjást á svona myndböndum. Eins og fólk á hennar aldri verji hún frítíma sínum gjarnan með vinum. 

„Sumum finnst örugglega að allir eigi rétt á sínum frítíma, en öðrum að þetta sé ekki sæmandi,“ segir hún.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skemmtanalíf Sönnu Marin ratar í fjölmiðla. Í desember í fyrra sótti hún næturklúbb í Helsinki án vinnusímans. Því náðu heilbrigðisstarfsmenn ekki sambandi við hana til að tilkynna henni að hún þyrfti að fara í sóttkví þar sem hún hefði nýlega verið í samskiptum við fólk sem hafði greinst með kórónuveiruna.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV