Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Búast má við hlaupi í Svartá og Hvítá í Borgarfirði

Mynd með færslu
 Mynd: Eldfjallafræði og náttúruvá - Facebook
Vatnsstaða í lóni við jaðar Langjökuls er orðin nokkuð há og búast má við hlaupi. Þetta sýnir meðfylgjandi gervitunglamynd. Náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að vel sé fylgst með stöðunni.

Þrisvar hefur hlaupið úr lóninu svo vitað sé; í ágúst 2020, ágúst 2017 og september 2014. Fyrst rennur hlaupvatnið undir jökli í suðvestur, þá í Svartá og þaðan í Hvítá í Borgarfirði. Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að þar sé fylgst vel með. Ekki eru leiðnimælar í þessum ám sem numið gætu yfirvofandi hlaup en vatnshæðarmælir er í Hvítá. 

„Þetta er sem sagt lón sem er við jaðar Langjökuls og það hljóp úr þessu lóni síðast fyrir tveimur árum. Núna virðist vatnsstaðan í þessu lóni vera orðin svipuð og hún var þá. Við erum með vatnshæðarmæli í Hvítá við Kljáfoss og það er svona mælir sem bara mun sýna okkur flóðtoppinn.“

Hlaup veldur mjög örum breytingum á vatnshæð í Svartá og Hvítá. Því getur verið hættulegt að vera á ferli við eða í ánum.