Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Borgin var ekki að gera sitt besta“

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Mótmælt var í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun þegar hústökuleikskóla var settur á laggirnar. Kristín Tómasdóttir, skipuleggjandi mótmælanna, segir að mótmælin séu örþrifaráð. Borgarráð kynnir tillögur til að koma til móts við foreldra í dag.

„Við munum mæta með börnin okkar því við erum ekki með vistun fyrir þau og ætlum að stofna hústökuleikskóla til að sýna í verki að það er ekki mikið mál að rigga upp dagvistun fyrir þau þegar viljinn er fyrir hendi,“ segir Kristín. 

Borgarráð fundar í ráðhúsinu í dag, og hefur boðað breytingar sem verða tilkynntar eftir hádegi. 

„Við erum að sjálfsögðu spennt að heyra upp á hvað þær hljóða,“ segir Kristín, „en það sýnir okkur líka að borgin var ekki að gera sitt besta og  var að setja ungbarnaforeldra í mikla neyð, án þess að þurfa þess.“

Kristín segir að foreldrar ungra leikskólabarna hafi engin úrræði og því muni þeir mæta í ráðhúsið eins lengi og þörf er á.

„Ég vona að við sjáum raunverulegar aðgerðir í dag. Ekki eitthvað sem á að þagga niður í okkur í hálfkáki eftir þrjá mánuði. Við þurfum leikskólapláss núna og ég hvet borgarfulltrúa til að bretta upp ermar,“ segir Kristín Tómasdóttir.

Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, segist skilja mótmælin vel.

„Þau hafa komið sínum sjónarmiðum skýrt á framfæri, og við höfum hlustað,“ segir hann í samtali við fréttastofu.

Hann segir að tillögur verða kynntar fyrir borgarráð, og teknar verða til skoðunar tillögur sem sjálfstæðismenn lögðu fram í skóla- og frístundasviði. Hann segir að það sé mikilvægt að foreldrar upplifi að það sé hlustað á þeirra kröfur. 

„Menn vilja vita hvernig við ætlum að laga þetta. Tillögurnar sem við leggjum fyrir borgarráð í dag koma til móts við mörg sjónarmið sem uppi eru og ég hlakka til að kynna þessar tillögur fyrir foreldrum.“