Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

34 ára fangelsi fyrir tíst í Sádi-Arabíu

Mynd: Twitter / Twitter
Ung sádiarabísk kona, Salma al-Shehab, hefur verið dæmd í 34 ára fangelsi í fyrir að endurtísta umfjöllun um mannréttindamál í Sádi-Arabíu. Al-Shebab var handtekin við komuna til landsins frá Bretlandi þar sem hún var í doktorsnámi við háskólann í Leeds. Al-Shebab, sem er 34 ára, gift og tveggja barna móðir, var fyrst dæmd í þriggja ára fangelsi en áfrýjunarréttur þyngdi dóminn mjög verulega.

Mjög harkalega tekið á mannréttindabaráttun

Þessi harði dómur er til marks um hversu hart yfirvöld í Sádi-Arabíu taka á allri mannréttindabaráttu undir forystu krónprinsins Mohammeds bin Salmans. Hann hefur þó lýst yfir að hann vilji breyta landinu og færa í átt að nútímanum en tekur samt af mikilli grimmd á allri andstöðu og má minnast þess að sádiarabískir leyniþjónustumenn myrtu blaðamanninn Jamal Kashoggi í Tyrklandi fyrir fjórum árum.

Glæpur að nota netsíðu

Salma al-Shehab var í undirrétti dæmd fyrir að nota vefsíðu sem væri ætlað að „valda ólgu og grafa undan þjóðaröryggi“ að mati dómsins. Dómstólar í Sádi-Arabíu eru ekki sjálfstæðir heldur lúta vilja stjórnvalda. Í frétt Guardian um málið segir að upphaflegum þriggja ára fangelsisdómi hafi verið áfrýjað til sérstaks hermdarverkadómstóls.

Reyna að hvítþvo sig á alþjóðavettvangi

Sádi-Arabar hafa að undanförnu reynt að hvítþvo sig á alþjóðavettvangi með því að ausa fé í íþróttaviðburði eins og röð golfmóta og þeir hafa einnig keypt enska knattspyrnufélagið Newcastle. 

Heimsgluggi vikunnar

Þetta var meðal þess sem Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir ræddu við Boga Ágústsson í Heimsglugga vikunnar. Þau ræddu einnig stöðuna í sænskum stjórnmálum rúmum þremur vikum fyrir kosningar. Þar stefnir í mjög spennandi kosningar. Lítil spenna virðist hins vegar um leiðtogakjör í breska Íhaldsflokknum þar sem allt bendir til að Liz Truss beri sigurorð af Rishi Sunak. 

Muss i denn

Þá var tveggja manna minnst í lokin með einu lagi. Þetta eru Elvis Presley og þýski leikstjórinn Wolfgang Petersen sem lést í vikunni. Í fyrradag voru 45 ár frá dauða Presleys.

Petersen notaði þjóðlag frá Schwaben í Suðvestur-Þýskalandi, Muss i denn í kvikmynd sinni Das Boot. Textinn er á svabískri þýsku, muss i denn, muss i denn zum Städtele hinaus; verð ég þá að fara og skilja þig eftir, Und du, mein Schatz, bleibst hier? Það var mjög vinsælt að syngja lagið í upphafi ferðalaga og leiðangra, ekki síst meðal sjómanna, bæði í kaupskipaflotanum og herflotanum. Þannig er það notað í Das Boot.

Til í mörgum útgáfum

Lagið er meðal þekktustu þjóðlaga Þjóðverja og það er til í mjög mörgum útgáfum. Marlene Dietrich, Mireille Mathieu og Nana Mouskouri hafa flutt það en þekktasta útgáfan í hinum enskumælandi heimi er án efa Wooden Heart sem Elvis Presley söng 1960 í kvikmyndinni G.I. Blues, sem fjallar um bandaríska hermenn í Þýskalandi. Presley var einmitt í hernum þar þegar hann gegndi tveggja ára herskyldu frá 1958-60. Lagið fór víða í efsta sæti á vinsældalistum.