Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Verðum vinir alveg til æviloka“

Mynd: RÚV / RÚV

„Verðum vinir alveg til æviloka“

17.08.2022 - 12:50

Höfundar

Sigurður Sigurjónsson leikari er einna helst þekktur fyrir leik sinn með Spaugstofunni. Þrátt fyrir að þeir Spaugstofumenn hafi ekki komið fram saman í fjölmörg ár segist Sigurður vita að þeir verði alltaf vinir.

Með okkar augum snýr aftur á skjáinn í kvöld og hópurinn fær til sín góða gesti að vanda, meðal annars Sigurð Sigurjónsson leikara. Hann segir frá því af hverju hann fór í leiklist, hvenær hann varð fyrst frægur og hve góðir vinir þeir Spaugstofufélagarnir eru og verði um ókomna tíð.

Sigurður segist ekki viss hvenær hann hafi áttað sig á að hann væri þjóðþekktur leikari. „Ég útskrifaðist 1976 úr leiklistarskólanum, 1978 þá man ég að ég lék í áramótaskaupi og þá var bara ein sjónvarpsstöð,“ segir hann í samtali við Andra Frey Hilmarsson þar sem þeir hittust í Þjóðleikhúsinu. „Öll þjóðin horfði á áramótaskaupið, eins og í dag, þá varð maður pínulítið þekktur á einni nóttu.“ 

„Þá held ég að ég hafi orðið pínulítið frægur á Íslandi.“ 

Jafnvel þótt félagarnir úr Spaugstofunni hafi ekki komið reglulega fram saman í fjölmörg ár segir Sigurður að þeir séu enn afskaplega góðir vinir. „Við erum svo góðir vinir að ég veit að við verðum vinir alveg til æviloka,“ segir hann. „Við hittumst einu sinni í viku og höfum gert í mörg ár og drekkum morgunkaffið saman.“ 

Sigurður getur ómögulega svarað því hvers vegna hann sé svo góður leikari. „Ég, eins og allir aðrir leikarar, reyni alltaf að gera mitt besta,“ segir hann. „Ein leiðin til þess er bara að vera einlægur og standa á jörðinni og ekki vera með neina stæla og vesen.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Andri Freyr og Siggi Sigurjóns ræða leiklistina og lífið í þætti kvöldsins.

Andri Freyr Hilmarsson ræðir við Sigurð Sigurjónsson í Með okkar augum á RÚV í kvöld kl. 19.40. Þættirnir hafa vakið athygli fyrir nýstárleg og frumleg efnistök. Fólk með þroskahömlun vinnur þættina með fagfólki í sjónvarpsgerð og miðlar þannig fjölbreytileika íslensks samfélags.   

Tengdar fréttir

Tónlist

Bríet forðast fólk sem brýtur hana niður

Menningarefni

„Ég var álitinn glæpamaður“

Menningarefni

„Ég held ég sé mildur, feminískur kommi“

Sjónvarp

Spaugstofumenn fengu hjartnæmt bréf frá aðdáanda