Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir að taka þurfi harðar á hatursglæpum

17.08.2022 - 15:01
Mynd: Fréttir RÚV / Fréttir RÚV
Ofbeldis- og hatursglæpir í garð hinsegin fólks og hinsegin samfélagsins hafa verið áberandi í kringum Pride-hátíðina í ár. Oslo Pride í Noregi var aflýst í ár vegna skotárásar skömmu áður á vinsælum skemmtistað hinsegin fólks.

Hér á landi hafa hatursorðræða og -glæpir einnig færst í aukana í því samhengi. Í síðasta mánuði voru oftar en einu sinni framin skemmdarverk á regnbogskreyttum tröppum Grafarvogskirkju. Um helgina var regnbogafáni við Hjallakirkju í Kópavogi rifinn niður og skemmdur og Sunna Dóra Möller sóknarprestur þar segir atvikið augljósan hatursglæp. Einungis eru nokkrir dagar síðan skorið var á bönd fána á níu fánastöngum á Hellu, þar sem regnbogafánar blöktu við hún til stuðnings hinsegin fólki.  

Eyrún Eyþórsdóttir er doktor í mannfræði og lektor í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri.  

„Rannsóknir hafa svolítið sýnt fram á, og þá ætla ég sérstaklega að vísa til kanadíska afbrotafræðingsins Barbara Perry, hún hefur talað um það að þegar minnihlutahópar taka sér pláss og auka sýnileika sinn þá verður alltaf einhver hluti samfélagsins sem bregst við með neikvæðum hætti. Það er að segja að kannski samþykkir samfélagið það að fólk sé hinsegin, að hér séu innflytjendur og svo framvegis en samþykkir það með einhverjum takmörkunum," segir Eyrún.

Hún segir að viðhorf fólks breytist oft þegar krafa um réttindi á við aðra verður sterkari. „Um leið og fólk fer svo að berjast fyrir bara jöfnum rétti á við aðra, berjast fyrir því að fá að vera í samfélaginu á sínum eigin forsendum þá virðist það vekja upp neikvæð viðhorf hjá ákveðnum hópi fólks. Og núna að undanförnu er verið að fagna fjölbreytileikanum með Pride-göngunni og svo hafa líka málefni trans fólks verið mikið til umræðu að undanförnu og ég get ímyndað mér að það sé að hreyfa neikvætt við ákveðnum hópum,“ segir Eyrún. Hún segir öfgaöfl nýta sér upplýsingaóreiðu á samfélagsmiðlum til að ná til fólks. Vitað er að krakkar á aldrinum 14-15 ára voru að verki á Hellu á dögunum þegar níu hinsegin fánar voru skornir niður.  

„Þarna er ungt fólk að verki. Þarna er ungt fólk að sýna fram á þessa fordóma. Við höfum alltaf hugsað: unga kynslóðin er svo upplýst, svo fordómalaus og umburðarlynd og svo framvegis. Þó að rannsóknir sýni að það sé líklegast rétt að nýjar kynslóðir eru með opnari huga gagnvart fjölbreytileikanum en eldri kynslóðir, þá er samt alltaf ákveðinn hluti með fordóma,“ segir Eyrún.

Hún segir að samfélagsmiðlar eigi stóran hlut að máli. Öfgaöfl nýti sér upplýsingaóreiðuna sem skapast þar. „Fullorðið fólk, hvað þá ungt fólk, á bara mjög erfitt með að skilja þar á milli, hvað eru raunveruleg vísindi frá því að vera bara eitthvað rugl. Samtök sem vinna gegn ákveðnum mininhlutahópum, vinna gegn jöfnum rétti og svo framvegis, þau nýta sér þetta," segir Eyrún.

Samfélagsmiðlar þrífast á deilum. Ágreiningur og átök skapa sókn fyrir miðlana og gera þá meira ávanabindandi. Fjallað var um ofbeldismanninn og TikTok-stjörnuna Andrew Tate í Speglinum fyrir helgi. Hann hefur sjálfur sagt að lykillinn að vinsældum á samfélagsmiðlum sé að safna 60-70% aðdáendum og 40-30% andstæðingum. „Þú vilt rifrildin, þú vilt stríð,“ segir hann. 

„Til dæmis bara svona hægri öfgahreyfingar hafa verið að tefla út ungu og myndarlegu fólki, oft kannski vel máli förnu, til að setja fram einhverjar upplýsingar sem eru í grunninn miklir fordómar en það er kannski ekki alltaf hægt að setja puttann á það því það er svo falið. Helstu fræðimenn um fordóma og rasisma í dag eru mikið að benda á að fordómar dagsins í dag eru svo faldir, svo duldir, það er búið að pakka þeim inn í einhverjar umræður svo fólk er kannski að tala með fordómafullum hætti þótt það átti sig ekki endilega alltaf á því,“ segir Eyrún.

Það kann að virðast að bakslag sem þetta komi eins og þruma úr heiðskíru lofti. Við lifum í mörgum mismunandi heimum á samfélagsmiðlunum okkar. Sum hafa kannski séð umræðuna þróast í þessa átt í einhvern tíma en önnur hafa eflaust ekki orðið vör við neitt. Allt eftir því hvernig algrímið virkar hjá hverju og einu. Eyrún segir bakslagið viðbúið. 

„Sko, ég held að þetta komi aftan að þeim sem hafa ekki verið að velta fyrir sér þessum hlutum undanfarin ár. Því fyrir mér er þetta bara mjög skýrt og hefur legið skýrt fyrir að þetta sé svolítið svona sá farvegur sem við værum að fara í,“ segir Eyrún. Hver ástæðan er segir hún öllu óljósara.

„Við vitum að það er uppgangur ýmissa öfgaafla hér og þar um heiminn. Það eru ekki mörg ár síðan farið var að tala um að lögregluyfirvöld þyrftu að fara að hætta að setja alltaf fókusinn á terrorisma í tengslum við íslamista heldur þyrfti líka að fara að horfa til hvítra öfgahreyfinga því þær færu bara vaxandi í hinum vestræna heimi. Þannig að þetta hefur svolítið legið ljóst fyrir. Við höfum bara séð uppgang popúlisma og hann gengur út á að það er einhver sem ógnar samfélaginu þínu og þér ber að hræðast og þú þarft að vera á móti og helst útiloka. Svo út frá þessum pælingum er kannski ekki að undra að við séum komin hingað,“ segir Eyrún. 

En eru þessi öfl sérstaklega að reyna að ná til ungs fólks? 

„Ég hef sjálf ekki rannsakað þetta svo ég get ekki alveg fullyrt um það en ég veit nú til dæmis að ein stærsta vaxandi öfgahreyfing í Evrópu, The Identitarian heita þau, hún er til dæmis ólík öðrum öfgahægrihreyfingum því það er eiginlega allt bara ungt háskólafólk. Ég held að þessi hreyfing hafi ekki náð fótfestu hérna á Íslandi en þetta er mjög hratt vaxandi hreyfing í Evrópu og þau eru að targeta ungt fólk svo ég held alveg já, að það sé verið að gera það.“ Hún segir auðvelt að sofna á verðinum. Breyting á orðræðu og áherslum geti verið lúmsk.  

„Það sem er kannski líka áhugavert í þessu tilliti er að rannsóknir hafa líka sýnt fram á að þegar fólk sér mikið af hatursorðræðu í sjónvarpinu, á netinu og svo framvegis, verður fólk ekki aðeins ónæmt fyrir því heldur vaxa líka fordómar hjá þeim. Þannig aukast fordómarnir. Þannig er hættulegt að vera með haturstjáningu og það er hættulegt að leyfa henni að fá að vera og bara vaxa og dafna,“ segir Eyrún. Nú þurfi að grípa fast í taumana. 

„Íslendingar hafa ofboðslega verið fastir í að hér ríki einhver jafnréttisparadís. Íslendingar verða náttúrulega að vera bestir í öllu í heiminum og við erum þá náttúrulega best í þessu líka hvort sem það er kynjajafnrétti eða jafnrétti á milli annarra hópa. Það hafa fræðimenn verið að benda á í gegnum tíðina að þessi jafnréttisparadís er kannski ekki alveg raunin.“

Eyrún segir að til þess að þetta breytist þurfi að hlusta á fólkið sem verður fyrir hatrinu. „Á meðan fólkið sem er við völd eða tekur ákvarðanir er fólk sem verður ekki fyrir þessu sjálft þá munum við kannski ekki sjá miklar breytingar. Ef þú finnur ekki fyrir þessu á eigin skinni upplifirðu kannski ekki að það sé mikil þörf á aðgerðum. Þess vegna held ég að við séum bara mjög sein að fara að vinna gegn til dæmis hatursofbeldi. Að það sé ekki bara þeim mun aktífari vinna gegn hatursglæpum, gegn hatursorðræðu því þegar við erum farin að eiga við hatursglæpi í svona miklum mæli eins og hefur sýnt sig að undanförnu þá erum við bara búin að missa af lestinni. Búin að missa af því að geta spornað gegn því á fyrri stigum," segir Eyrún.

Rætt var við Eyrúnu Eyþórsdóttur, doktor í mannfræði og lektor í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, í Speglinum. Hægt er að hlusta á viðtalið við hana í spilaranum hér fyrir ofan.