Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

,,Sænska tundurskeytið"

epa10124640 First placed Sarah Sjoestroem of Sweden celebrates on the podium after the Women's 50m Freestyle final at the European Aquatics Championships Rome 2022, Italy, 16 August 2022.  EPA-EFE/GIUSEPPE LAMI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA

,,Sænska tundurskeytið"

17.08.2022 - 21:15
Sænska afrekskonan í sundi, Sarah Sjöström, á afmæli í dag og gerði sér lítið fyrir og varð sigursælasti sundmaður sögunnar á Evrópumeistaramótum. Hún hefur viðurnefndið ,, Sænska tundurskeytið" og er skíthrædd við að fljúga, sem er kannski ekki það besta þegar um afreksíþróttamann er að ræða.

 

Sarah Fredrica Sjöström er fædd 17.ágúst 1993 í Svíþjóð og því afmæli í dag. Það er því við hæfi að hún fagni sínum afmælisdegi með því að krækja sér í sín 28.verðlaun á Evrópumeistaramótum (EM) á sínum ferli. Þessum merka áfanga náði hún með því að synda til sigurs með boðsundssveit Svía í 4x100m fjórsundi í borginni eilífu, Róm, á lokadegi EM. 

Engin sundmaður í sögunni hefur náð þessum árangri en metið yfir flest verðlaun á EM átti Rússneski sprettsunds meistarinn Alexander Popov en hann náði 26 verðlaunum, aðallega í 50m skriðsundi, 100m skriðsundi og boðsundssveitum. 

Sarah Sjöström fékk viðurnefnið ,,sænska tundurskeytið” vegna svakalegrar fótavinnu sem hún hefur ávallt haft í kafi eftir stungu og snúning en þessi kraftur er hennar aðalsmerki.  

Hún byrjaði nú frekar seint að æfa sund eða við tíu ára aldurinn. Henni fannst nefnilega ekkert gaman af þessari íþrótt og var mikið í fótbolta og handbolta sem ung stúlka. Sjöström byrjaði að mæta á sundæfingar þar sem besta vinkona hennar byrjaði að æfa og hún vildi vera sem mest með henni. 

,,Þegar ég byrjaði að æfa sund, þá í raun fannst mér þetta ekkert skemmtilegt. Ég hataði að fá vatn í gleraugun mín. Mér fannst ekkert gott að vera kalt, þannig að ég faldi mig í sturtunni”. Sagði Sjöström í viðtali við blaðamenn í aðdraganda Ólympíuleikanna í Tókýó 2021. 

Það tók hana samt ekki langan tíma að komast í rétta gírinn fyrir þessa íþrótta því aðeins fjórum árum eftir að hún byrjaði að æfa þá vann hún sín fyrstu verðlaun á EM er hún sigraði í 100m flugsundi á EM í Eindhoven, Hollandi. Ári seinna þá setti hún sitt fyrsta heimsmet en það gerði hún í undanúrslitunum í 100m flugsundi á Heimsmeistaramótinu í Róm. Met sem hún svo bætti aftur í úrslitasundinu og vann þar með sín fyrstu gullverðlaun á heimsmeistaramóti. 

Síðan þá hefur hún unnið til 89 verðlauna á Ólympíumótum, Heimsmeistaramótum og Evrópumótum á ferlinum.  Sjöström hefur verið kosin besta sundkona Evrópu 2017, 2018 og 2021 af Evrópska sundsambandinu. Verið íþróttamaður ársins í Svíþjóð fimm sinnum, besta sundkona Heimsmeistaramótsins árið 2017 en þar vann hún til fimm einstaklings gullverðlauna sem enginn hafði áður gert í kvennaflokki. 

Sjöström gerir nú eitthvað annað en að æfa sína íþrótt daginn út og inn. Það vita ekki margir að Sjöström er mjög efnilegur leikmaður í Counter Strike og ef þið rekist á DestrOyestrOm í leiknum þá eru þið að spila við Ólympíu - og heimsmeistara. Sjöström hefur einnig verið mjög dugleg að æfa innanhúsklifur. 

,,Klifur hjálpar mér mikið við styrk í handleggjunum. Ég mun samt ekki keppa í þeirri grein á Ólympíuleikunum”.  

Ferðalög og tilheyrandi er stór fylgifiskur þess að vera stórstjarna í afreksíþróttum í dag en Sjöström á í smá erfiðleikum með öll þessi ferðalög þar sem hún er svakalega flughrædd. ,,Þetta er klárlega það versta sem afreksíþróttamaður getur haft. Ég var ekki svona þegar ég var yngri en þetta hefur bara versnað eftir að ég varð eldri” sagði Sjöström í viðtali við sænskt tímarit.  

,,Versta flugferð sem ég hef farið í á ævinni er flug frá London til Ríó. Flugvélin hristist svo svakalega mikið um miðja nótt að mér fannst hún væri bara að fara að hrapa. Þetta er betra þegar ég er að ferðast með liðinu mínu eða vinum mínum en það að setjast við hliðina á ókunnugum, þá verð ég ofsalega hrætt”. 

Sarah Sjöström er hvergi nærri hætt og hefur sett stefnuna á sína fimmtu Ólympíuleika í París.