Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Með því verra sem ég hef séð“

Mynd með færslu
 Mynd: Þórhallur Þorsteinsson
Mikil ummerki utanvegaaksturs hafa sést á hálendinu norðan Vatnajökuls í sumar. Framkvæmdastjóri í ferðaþjónustu á Austurlandi segir þetta með allra versta móti. Hann kallar eftir aukinni fræðslu til erlendra ferðamanna á bílaleigubílum. 

Ljót ummerki um utanvegaakstur

Þórhallur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, birti í gær myndir á Facebook af ljótum ummerkjum um utanvegaakstur á Kverkfjallaleið. Þar sjást djúp hjólför þar sem ekið hefur verið í hringi og beygjur. „Þetta er á leiðinni frá Möðrudal, á svokallaðri Kverkfjallaleið frá Möðrudal og inn undir Kreppubrú, sem þessar skemmdir eru.“

Á Þríhyrningsleið, Kverkfjallavegi og í Brúardölum

Þórhallur segir þetta einna verst á Kverkfjallavegi, en einnig séu ummerki um utanvegaakstur á Þríhyrningsleið, sem er úr Jökuldal og inn á Kverkfjallaveg. Þá séu einnig ljót ummerki í viðkvæmu landi á Brúardölum. „Þetta er bara með því verra sem ég hef séð.“

Mynd með færslu
 Mynd: Þórhallur Þorsteinsson

Oftast erlendir ferðamenn á bílaleigubílum

Hann segist hafa haft afskipti af utanvegaakstri á hálendinu í 30 ár. Í flestum tilfellum séu þetta erlendir ferðamenn á bílaleigubílum, þó íslenskir ökumenn keyri einnig utan vegar. „Þeir koma yfirleitt fyrst inn á hálendið hér fyrir austan þegar þeir koma úr Norrænu. Eftir það, á þessum ferjudögum, þá sjáum við oft slæman utanvegaakstur.“

Það vanti betri fræðslu og upplýsingar

Og þarna vanti betri fræðslu og upplýsingar til þessara erlendu ferðamanna. Það þurfi meiri samvinnu við bílaleigurnar og betri fræðslu um borð í Norrænu. En Íslendingarnir eigi að vita betur. „Það er kannski það versta, þegar menn vita það og þekkja það vel Íslendingar, að þeir skuli ennþá vera keyrandi utan vegar,“ segir Þórhallur.