Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Liz Cheney tapar fyrir stuðingskonu Trumps

Rep. Liz Cheney, R-Wyo., speaks Tuesday, Aug. 16, 2022, at a primary Election Day gathering in Jackson, Wyo. Cheney lost to challenger Harriet Hageman in the primary. (AP Photo/Jae C. Hong)
 Mynd: AP
Liz Cheney, þingmaður Repúblikana og harður gagnrýnandi Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, verður ekki frambjóðandi flokksins þegar íbúar Wyoming-ríkis kjósa eina fulltrúa sinn i fulltrúadeild Bandaríkjaþings í nóvember. Hún hefur þegar viðurkennt ósigur sinn. Einörð stuðningskona Trumps kemur í hennar stað.

Stóru flokkarnir tveir, Repúblikanar og Demókratar, héldu forkosningar í Wyoming í gær. Þegar búið var að telja rúman helming atkvæða hafði Harriet Hageman, sem Trump hefur stutt dyggilega, fengið um rúmlega 63 prósent þeirra, en Cheney 32,5 prósent.

Fer fyrir rannsókn þingsins á Trump og árásinni á þinghúsið

Cheney er einn örfárra þingmanna Repúblikana sem snerist gegn Trump eftir árásina á þinghúsið í janúar í fyrra. Hún hefur verið þingmaður WYoming frá 2016 og studdi Trump dyggilega lengst af forsetatíðar hans, en árásin á þinghúsið og framganga forsetans í öllu sem að henni lýtur breytti því.

Hún hefur, ásamt Demókratanum Bennie Thompson, leitt rannsóknarnefnd þingsins sem fer ofan í saumana á árásinni og þátt Trumps í henni.

Trump og stuðningsfólk hans hafa fordæmt hana fyrir vikið, kallað hana svikara og sagt hana einungis vera Repúblikana að nafninu til. 

„Baráttan rétt að byrja“

Skoðanakannanir bentu allar til þess að Cheney myndi bíða ósigur, þrátt fyrir að hún hafi setið á þingi fyrir Wyoming um árabil og jafnan verið talin til íhaldsamari arms Repúblikanaflokksins. Eindreginn stuðningur föður hennar, Dicks Cheney, sem var fulltrúi ríkisins á Bandaríkjaþingi um tíu ára skeið og varnarmálaráðherra í ríkisstjórn George W. Bush, dugði heldur ekki til, og það gerði yfirlýstur stuðningur Bush ekki heldur. 

„Ég hringdi í [Hageman] til að viðurkenna að kapphlaupinu í þessum forkosningum er lokið,“ sagði Cheney eftir að fyrstu tölur birtust. „En nú er alvöru vinnan rétt að byrja.“ 

Óljóst er hvað við tekur hjá Cheney umfram það, að hún hyggst ekki láta sig hverfa af vettvangi stjórnmálanna. „Ég hef sagt það allar götur frá 6. janúar [2021] að ég muni gera allt sem gera þarf til að tryggja að Donald Trump komist aldrei aftur nálægt forsetaskrifstofunni -- og ég meina það,“ sagði Cheney eftir að úrslitin lágu fyrir. 

Hún hefur ekki lýst því yfir enn sem komið er að hún ætli að bjóða sig fram í þingkosningunum í haust á eigin vegum eða annarra. Þá hefur hún heldur ekkert tjáð sig um vangaveltur stjórnmálaskýrenda um það, hvort hún ætli sér mögulega að etja kappi við Trump i forkosningum Repúblikana fyrir forsetakosningarnar 2024, né heldur um þær kenningar, að hún hyggi á forsetaframboð sem óháður frambjóðandi.

Gegn ríkisafskiptum og umhverfisvernd sem hindrar iðnað

Hageman er lögfræðingur og lögmaður sem ítrekað hefur tekið undir sannanlega rangar fullyrðingar Trumps um að sigri í forsetakosningunum 2020 hafi með einhverjum hætti verið „stolið“ af honum. Hún hefur um árabil sérhæft sig í berjast gegn náttúruverndarsinnum og náttúrverndarlögum, sem ætlað er að vernda land, vatn, fánu og flóru, hvort sem er í Bandaríkjunum öllum eða aðeins þessu fámennasta ríki Bandaríkjanna, Wyoming.

Í frétt New York Times segir að eitt helsta afrek hennar sé að hafa hnekkt lögum sem Bill Clinton setti í sinni forsetatíð og miðuðu að því að vernda milljónir hektara af skóglendi í alríkiseigu gegn vegagerð, námuvinnslu og öðru raski.

Hún hefur unnið mikið fyrir olíu-, orku- og námufyrirtæki, segir í frétt NYT, og er eindreginn andstæðingur þess að land geti verið í eigu bandaríska alríkisins. Þannig var krafa um að alríkið seldi um 4.000 ferkílómetra skóglendis í hendur Wyoming-ríkis á meðal helstu baráttumála Hageman í ríkisstjórakosningunum 2018.

Þeim kosningum tapaði hún, en næsta öruggt má heita að hún sigri í þingkosningunum í haust, þar sem Wyoming hefur verið eitt traustasta vígi Repúblikana um áratuga skeið.