Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bíða af sér veður í Grindavík enda lokað á gosstöðvar

Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
Lögregla stöðvaði í dag bíla ferðamanna sem hugðust ganga að eldgosinu á Reykjanesskaga enda var lokað vegna veðurs. Ferðamenn á svæðinu báru sig vel þrátt fyrir illviðri. Einn reyndi að hjóla til Grindavíkur en aðrir reistu tjöld þrátt fyrir mikinn vind. Lokað verður að gosstöðvunum til morguns.

Strax í gær ákvað lögregla að loka gönguleiðum að eldgosinu á Reykjanesskaga vegna veðurs. Lokunarpóstar voru á Suðurstrandarvegi. 

Meðan Fréttastofa RÚV var við lokunarpóst stoppuðu þó nokkrir ferðamenn bíla sína og horfðu löngunaraugum í átt að gosstöðvunum. Lögregla sneri þeim við sem hugðust ganga að gosinu. 

„Við erum svo sem að stoppa alla umferð og ítreka það fyrir fólki að gossvæðið er lokað, bannað að leggja inni á því, meðan þetta óveður gengur yfir,“ segir Hjálmar Hallgrímsson lögreglumaður og vettvangsstjóri.

Hefur einhver reynt að ganga að gosstöðvunum í dag?

„Nei, það hefur enginn lagt í það enda er veðrið slíkt að við gerum ekki ráð fyrir því. Þetta er bara algjörlega glatað göngu og ferðaveður. Það er rétt hægt að keyra hérna á milli,“ segir Hjálmar.

Einn ferðamaður, Roberto frá Ítalíu, freistaði þess að hjóla eftir Suðurstrandavegi frá Selfossi. Hann þurfti þó að teyma hjólið góðan hluta leiðarinnar. En hvað finnst honum um sumarveðrið á Íslandi?

„Það er erfitt. Þetta er mjög erfitt hér í dag. Vindurinn lætur finna vel fyrir sér,“ segir Roberto.

Ætlaðirðu að gosstöðvunum?

„Ekki í dag. Veðrið er svo slæmt og ég læt duga að fara til Grindavíkur. Slaka á og ef veðrið verður betra á morgun reyni ég kannski. En sleppi því annars,“ segir Roberto.

Fréttamanni þótti ráðlegast að láta björgunarsveitir vita af raunum Robertos og fékk hann far með þeim til Grindavíkur.

Eruð þið búin að stoppa marga í dag sem ætluðu að fara að kíkja á gosið?

„Já, talsvert marga miðað við verðið. En flestir þeirra taka bara vel í þetta og snúa við. Þetta eru aðallega útlendingar, misvel búnir. Sumir bara í gallabuxum og strigaskóm,“ segir Margrét Ósk Elíasdóttir í björgunarsveitinni Dalvík.

Þrátt fyrir óblítt veður er töluvert af fólki á tjaldsvæðinu í Grindavík. Við hittum þar fyrir fjölskyldu frá Frakklandi en þau voru þar í nokkuð erfiðum aðstæðum. Þrátt fyrir mikinn mótbyr tókst þeim að koma upp tjöldum. 

Það var býsna snúið að tjalda í þessu veðri?

„Já, víst. Vindurinn blæs af krafti og það er mjög kalt,“ segir Laurant. 

En þú ert í stuttbuxum?

„Tja...“ segir Laurant en bætir við að illskárra sé að vera í blautum stuttbuxum en blautum síðbuxum.

Hvaðan ertu?

„Frá Frakklandi,“ segir Laurant. 

Hvað eruð þið að gera hér í Grindavík í þessu slæma veðri?

„Af því að við höfum verið gift í tíu ár. Við ferðumst í tilefni af tíu ára brúðkaupsafmæli okkar,“ segir Laurant.

Hópur Hollendinga var einnig á tjaldsvæðinu.

„Við förum heim á morgun svo að það er einn dagur eftir. Þetta er besti staðurinn nærri flugvellinum og því erum við hér. Og vonumst til að haldast þurr í nótt,“ segir Manon Hoogendoorn. 

„Við njótum góða veðursins á Íslandi. Það er frábært,“ segir Bas Jan Dikken og brosir.

Hvað er svona frábært við það?

„Nú í Hollandi. Þar blæs en það skemmtilega við Ísland er að þið hafið sólskin, rigningu og óveður allt á einum degi. Það snjóar ekki. Við bíðum þess að það snjói,“ segir Bas.

Þau gengu að gosinu í gær. Þið reynduð ekki að fara í dag?

„Nei, við fórum í gær. Það var algerlega æðislegt og við erum nokkuð sátt,“ segir Arno Wisjmuller.