Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Árið 2022 hljóta menn að hafa einhverjar aðrar leiðir“

17.08.2022 - 19:23
Mynd: RÚV / RÚV
„Árið 2022 hljóta menn að hafa einhverjar aðrar leiðir en þessar,” segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra um fyrirhugaða þungaflutninga á vikri á Suðurlandi. Hann leggst gegn áformunum og segir að það náist aldrei sátt um málið nema með öðrum útfærslum.  

Áformin gera ráð fyrir að allt að þrjátíu flutningabílar verði í stöðugum akstri allan sólarhringinn. Ekið yrði inn á þjóðveginn og um 170 kílómetra, til Þorlákshafnar. Keyrt yrði að Selfossi og beygt inn á Eyrarbakkaveg, áleiðis til Þorlákshafnar en einnig komi til greina að fara í gegnum þéttbýlið á Selfossi.  

 Áætlað er að í Þorlákshöfn verði geymslupláss fyrir allt að tólf þúsund tonn af vikri, eða átján þúsund rúmmetra. Þá eru hugmyndir um að þar verði allt að fimmtán hundruð metra langt færiband sem flytji efnið niður á hafnarbakkann.   

Þar tekur flutningaskip á móti vikrinum og miðað er við að hvert skip taki allt að níu þúsund tonn. Það eru um 270 vörubílaferðir en það tekur sex vörubíla um sólarhring að fylla slíkt skip.   

 Fjöldi ferða aukist svo með tímanum, eða þar til milljón tonn verða flutt út árlega.   

„Það vita það allir að það er mikið álag á innviðina nú þegar og setja þungaflutninga ofan í það er nokkuð sem ég held að verði aldrei sátt um,“ segir Guðlaugur Þór.  

Verkfræðistofan Efla  vann ítarlega ríflega hundrað blaðsíðna umhverfismatsskýrslu um áformin þar sem finna má bæði kosti og galla. Gallarnir eru fyrst og fremst þeir að þungaflutningar hafi veruleg áhrif á vegi og umferðaröryggi en kostirnir að vikurinn kemur í stað sementsklinkers og minnkar því kolefnislosun í steypuframleiðslu. Guðlaugur segir að kostirnir vegi ekki upp á móti göllunum.  

 „Alveg sama út frá hvaða sjónarhorni þú lítur á það, að bæta ofan á þessa vegi og í gegnum þessi þéttbýli er ekki að ganga upp,” segir hann.  

Þeir sem hyggi á þetta verkefni þurfi því að koma sjálfir með aðrar lausnir.  

 Muntu beita þér gegn þessu?  

„Ja, ég er nú að segja mína skoðun og hef skoðun á þessu þannig að það er væntanlega að beita sér.”