Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Máttu dúsa í Ikea-verslun í tvo daga

16.08.2022 - 06:45
epa00690119 Workers clean up the grounds before the opening ceremony of the world's second largest IKEA superstore, in Beijing, China, Wednesday 12 April 2006.  The Swedish retail giant chose to open the 43,000 square meter building in Beijing as China's consumer spending is expected to further increase.  EPA/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA
Allmargir íbúar kínversku borgarinnar Shanghai, stærstu borgar Kína, máttu dúsa í Ikea-verslun sunnudag og mánudag. Heilbrigðisyfirvöld í borginni röktu kórónuveirusmit til einnar stórverslana sænsku húsgagnakeðjunnar í borginni og fyrirskipuðu í framhaldinu að öllum útgöngum hennar skyldi lokað.

Verslunin og svæðið umhverfis hana var einangrað á sunnudaginn til að koma í veg fyrir frekari smit. Áður en lokað var myndaðist öngþveiti innandyra og -utan þegar verslunargestir forðuðu sér, til að komast hjá því að verða innlyksa.

Hver og einn sem varð eftir í versluninni neyddist til að halda þar til í tvo sólarhringa, auk þess sem fylgjast þarf með heilsufari þeirra í fimm daga til viðbótar.

Kínverjar hafa rekið svokallaða núllstefnu gagnvart COVID-19 og gera enn með róttækum og hörðum aðgerðum hvar og hvenær sem ný smit greinast. Þannig hefur þeim hingað til tekist að halda faraldrinum í skefjum, oftar en ekki með ströngu útgöngubanni. 

Tveggja mánaða útgöngubanni var aflétt í Shanghai í lok maí. Þá máttu allir 25 milljón íbúar borgarinnar fara að mestu leyti frjálsir ferða sinna eftir langt og strangt útgöngubann.