Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Markmiðið að hjóla eins hratt og maður getur“

Mynd: María Björk Guðmundsdóttir / RÚV

„Markmiðið að hjóla eins hratt og maður getur“

16.08.2022 - 14:16
Um miðjan dag á morgun er komið að keppni í tímatökum á EM í hjólreiðum. Þar verða þrír Íslendingar meðal keppenda. Hafdís Sigurðardóttir og Silja Rúnarsdóttir hefja þar keppni á EM. Við sýnum beint frá kvennakeppninni á RÚV 2 frá 11:50 á morgun og frá karlakeppninni þar sem Ingvar Ómarsson verður frá 15:20.

„Tímatökurnar snúast raunverulega bara um það að þú ert ein, í eigin hugsunum að komast eins hratt og þú mögulega getur. Að halda út tímann og skrúfa púlsinn hátt. Það er bara markmiðið að hjóla eins hratt og maður getur. Það er ekki hægt að setja sér neitt annað markmið. Svo er bara að komast vel í gegnum beygjur ef þær eru einhverjar. Annars er þetta ekki hefðbundin tímatökubraut, því það eru nokkrar brattar brekkur. Þannig þetta snýst um að stíga vel upp. Það er ekkert hægt að stilla sig inn á einhvern ákveðinn hraða og halda honum,“ sagði Silja Rúnarsdóttir þegar RÚV ræddi við hana um tímatökukeppnina á morgun.

Fara rólegri inn í tímatökurnar

„Maður fer aðeins rólegri inn í þá keppni miðað við götuhjólreiðakeppnina. Í tímatökunum þarf maður bara að gera sitt. Við ættum að vera búin að læra brautina vel, þannig svo er bara að vona að fæturnir séu í standi og svo er bara að gefa allt í þetta,“ sagði Hafdís Sigurðardóttir um tímatökurnar á morgun.

Mynd með færslu
 Mynd: Hjólreiðasamband Íslands - HRÍ
Ingvar Ómarsson stendur í ströngu á EM í München.

„Ég hugsa að eftir götuhjólreiðakeppnina sem ég tók þátt í á sunnudag að þá fari ég frekar slakur inn í þessar tímatökur. Það er töluvert minna stressandi keppni, því í tímatökunum hjólar maður bara einn með sjálfum sér. Allt sem tengist þeirri keppni kemur bara innan frá. Ég þarf að vera með mitt hjól á hreinu, fæturnir þurfa að vera ferskir og ég með brautina á hreinu. Svo er þetta ekkert flóknara en að ég hjóli eins hratt og ég get,“ sagði Ingvar Ómarsson sem stóð sig vel á laugardaginn þegar hann kláraði erfiða keppni í götuhjólreiðum á EM, sem ekki er sjálfgefið að klára, og endaði í 111. sæti.

Eins og fyrr segir hefst bein útsending frá tímatökukeppni kvenna á RÚV 2 klukkan 11:50 og tímatökukeppni karla verður svo sýnd á sömu rás klukkan 15:20.