Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fréttir: Dregið mjög úr hraunflæðinu

16.08.2022 - 12:14
Lokað verður að gosstöðvunum í Meradölum á morgun vegna veðurs. Mjög hefur dregið úr eldgosinu. Hraunflæðið síðustu þrjá daga var um þriðjungur þess sem það var í fyrstu viku gossins. Flytja þurfti sjö göngumenn af svæðinu í gær vegna þreytu og ofreynslu.

Meira en mánaðarbið er eftir tíma hjá heimilislækni á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og forstjórinn segir að það bráðvanti lækna. Sumir læknar eru með allt að þrefalt fleiri sjúklinga en æskilegt er. 

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sakar Bandaríkjamenn um reyna að draga stríðið í Úkraínu á langinn. Hann segir Bandaríkin hella olíu á eld átaka um heim allan. Rússar hafa rýmt tvö þúsund manna þorp á Krímskaga vegna sprengjuárása Úkraínumanna.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að ekkert sé hæft í ásökunum frá fyrrverandi forseta ASÍ um að hún hafi ráðist að persónu hennar. Sólveig birti fyrstu grein sína í morgun, af alls fjórum um samskipti Eflingar við ASÍ í formannstíð sinni.

Elvis var svo sannarlega kóngurinn segir Arnar Eggert Thoroddsen tónlistarfræðingur, en 45 ár eru í dag frá láti Elvis Presley. Arnar Eggert vonar að yngra fólk gefi tónlist rokkkóngsins gaum því hún sé töfrar og algjör snilld.

Keppni á Meistaramóti Evrópu stendur sem hæst í München. Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason og sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson keppa báðir á EM í frjálsíþróttum á morgun og stefna báðir í úrslit.
 

 

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV