Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Efast um að vegirnir þoli þungaflutningana

16.08.2022 - 20:26
Mynd: Kristinn Magnússon / RÚV
Sveitarstjórar á Suðurlandi leggjast gegn áformum um vikurflutninga um þjóðveginn í núverandi mynd. Þá efast þeir um að vegirnir þoli álagið. 

Vikrinum verður ekið með þungaflutningabílum á fimmtán mínútna fresti, allan sólarhringinn, næstu hundrað árin, nái áformin fram að ganga. Efasemdir eru þó um að vegurinn hreinlega þoli þessa flutninga og þá hafa íbúar áhyggjur af hljóðvistinni, svo dæmi séu tekin.

Það er þýska fyrirtækið EP Power minirals sem hyggur á efnistökuna á Mýrdalssandi austan og suðaustan við Hafursey, svokallaðri Háöldu. Áformin gera ráð fyrir að vikrinum verði ekið þaðan og alla leið inn í Þorlákshöfn, rúmlega 170 kílómetra vegalengd, þaðan sem vikrinum verður siglt út í heim. 

„Flestir hafa auðvitað áhyggjur af umfangi þessara landflutninga, að hér fari full lestaður vörubíll af stærstu gerð um á átta mínútna fresti. Og þær staðhæfingar sem settar eru fram um áhrif á umferð á ferðamennsku og hljóðvist, við höfum miklar efasemdir um að þær standist,“ segir Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps. 

Vík í Mýrdal er næsta sveitarfélag við Hafursey en þar er lagt til að í þessu eina hafnarlausa sjávarþorpi landsins verði reist höfn og þá hægt að flytja efnið þaðan. 

„Þetta gæti opnað upp á ýmis konar möguleika í annarri atvinnustarfsemi, til dæmis í ferðaþjónustu eða sjávarútvegi,“ segir hann og bætir við að EP Power ætti að sjá hag sinn í því að fjármagna höfn í Vík. 

Ráðgert er að fyrst í stað verði bílarnir sextán talsins en verði síðan þrjátíu. Hver bíll fer þrjár ferðir á dag og unnið er á þrískiptum vöktum þannig að farið er 107 ferðir daglega. Því munu vörubílar fara um veginn á sjö til átta mínútna fresti. 

„Svona almennt séð þá held ég að þetta séu býsna brött áform og þó mönnum myndi lítast á þetta að þá held ég er ég hræddur um að innviðirnir í dag, vegirnir, beri ekki svona áform,“ segir Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra. 

En haldið þið að vegurinn þoli þetta? 

„Miðað við þær tölur sem ég hef heyrt menn slá fram um slit á vegi vegna svona stórra bíla að þá hef ég persónulega miklar efasemdir um að vegakerfið á Suðurlandi þoli þetta,“ segir Einar Freyr. 

Sömu áhyggjur eru uppi í Árborg.

„Hérna í sveitarfélaginu Árborg hefur umræðan fyrst og fremst snúið að umferðarmagninu, hvaða leið verður farin,“ segir Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs Árborgar. „Við höfum áhyggjur af umferðarmagninu, að vegirnir þoli þetta, og íbúarnir hafa nefnt hljóðmengun strax,“ segir hann.

 

sunnaks's picture
Sunna Karen Sigurþórsdóttir
Fréttastofa RÚV