Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Biðjast afsökunar á áreitni þjálfara fjórum árum síðar

Mynd með færslu
Emilía Rós Ómarsdóttir Mynd: Art Bicnick

Biðjast afsökunar á áreitni þjálfara fjórum árum síðar

16.08.2022 - 17:10
Stjórn Íþróttabandalags Akureyrar og Skautafélags Akureyrar hefur beðið Emilíu Rós Ómarsdóttur, listskautara sem æfði skauta með félaginu, afsökunar á ónærgætinni nálgun og viðbrögðum við athugasemdum hennar við óviðeigandi framkomu þjálfara Listhlaupadeildar árið 2018.

Emilía Rós Ómarsdóttir, listskautari, æfði hjá Skautafélagi Akureyrar og varð fyrir áreitni og síðar einelti af þáverandi þjálfara sínum hjá skautafélaginu. Í viðtali við Fréttablaðið árið 2019 greindi hún frá áreitninni. Þar segir hún að þjálfarinn hafi verið rúmlega þrítugur en hún ekki orðin átján ára. Hann hafi byrjað að senda henni skilaboð á Facebook en áreitnin hafi aukist með tímanum. Hann hafi loks hætt að áreita hana en hafi þá farið að snúast gegn henni og lagt hana í einelti. 

„Stjórn ÍBA og SA vill í einlægni biðja Emilíu Ómarsdóttur og aðra hlutaðeigandi sem og fjölskyldu hennar velvirðingar á ónærgætinni nálgun og viðbrögðum við athugasemdum sem gerðar voru við óviðeigandi framkomu þjálfara Listhlaupadeildar árið 2018,“ segir í yfirlýsingunni

Stjórn Íþróttabandalags Akureyrar og Skautafélags Akureyrar gaf út yfirlýsingu í september 2018 þar sem var meðal annars sagt „...að engar sannanir eða merki voru um að þjálfari listskautadeildarinnar hafi brotið siðareglur eða mismunað iðkendum.” Í afsökunarbeiðninni segir að það hafi því miður ekki verið raunin og við nánari skoðun hafi komið í ljós að þjálfarinn hafi áreitt Emilíu á óviðeigandi hátt. 

„Fyrir það var hann áminntur og hætti hann sjálfur sinni þjálfun hjá félaginu stuttu seinna. Með faglegri viðbrögðum hefði verið hægt að draga úr sársauka og þjáningu þeirra sem að málinu komu og auðvelda lausn máls. “ segir í yfirlýsingunni. 

„Af þessu höfum við dregið lærdóm, auk þess sem íþróttahreyfingin öll hefur sett sér betri reglur og verkferla, meðal annars með stofnun embættis samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs.“