Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Áslaug Arna á faraldsfæti í vetur

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, verður með færanlega skrifstofu á tíu stöðum víða um landið í haust. Á hverri starfstöð verður ráðherra með opna viðtalstíma.

Áslaug Arna segir í tilkynningu að hugmyndin hafi kviknað þegar hún hafi leitt hugann að því hvernig ráðuneyti sem búið væri til 2022 myndi starfa. „Með þessu kynnist ég enn betur starfsemi sem tengist ráðuneytinu um allt land og fæ tækifæri til að prófa að starfa annars staðar en í Reykjavík,“ segir Áslaug Arna. 

Störf óháð staðsetningu 

Ráðuneytið hefur verið opið fyrir störfum óháð staðsetningu síðan það tók til starfa í febrúar að því er segir í tilkynningunni. Í því felst að starfsemi ráðuneytisins er ekki bundin við einn ákveðin stað. Þannig geta starfsmenn unnið að heiman eða frá þeim stað á landinu sem best hentar hverju sinni. 

Ráðherra verður meðal annars með starfstöð í Snæfellsbæ, Árborg, Múlaþingi, Akureyri og Ísafirði.

Hér má sjá hvar Áslaug Arna verður stödd hverju sinni. 

  • 18. ágúst – Snæfellsbær
  • 29. ágúst – Mosfellsbær
  • 5. september – Árborg
  • 12. september – Hafnarfjörður
  • 22. september – Múlaþing
  • 28. september – Akureyri
  • 10. október – Ísafjörður
  • 13. október – Reykjanesbær
  • 20. október – Vestmannaeyjar
  • 27. október – Akranes

Dagsetningar eru birtar með fyrirvara um breytingar á dagskrá ráðherra. 

Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið uppfærð.

ingibjorgsg's picture
Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir
Fréttastofa RÚV