Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Um 200 manns fljúga með þyrlum að gosinu á dag

15.08.2022 - 21:27
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - RÚV
Uppgrip eru hjá þyrlufyrirtækjum sem fljúga með ferðamenn að gosstöðvunum líkt og í fyrra. Hátt í 200 manns fljúga þangað daglega þegar til þess viðrar. Nokkur fyrirtæki bjóða upp á þyrluferðir að gosinu og eitt þeirra er Norðurflug. Framkvæmdastjóri þess, Birgir Ómar Haraldsson, segir fyrirtækið hafa þurft að fjölga starfsfólki og þryrlum til að anna eftirspurninni.

„Engu að síður eru biðlistarnir okkar orðnir mjög langir líkt og í fyrra og eins og staðan er núna þá ná þeir fram í október.“

Hver ferð að gosstöðvunum kostar tæplega 50 þúsund krónur á mann og 37 þúsund fyrir börn og tekur um 45 mínútur frá flugtaki á Reykjavíkurflugvelli og þar til lent er þar aftur. Um 7-10 mínútur tekur að fljúga að eldstöðvunum hvora leið.

Oftast eru allar fjórar þyrlurnar fyrirtækisins í notkun og hver þeirra tekur fimm farþega auk flugmanns. Samhliða þessu þurfi einnig að sinna öðrum verkefnum en talsvert er um að ferðamenn vilji fljúga upp jökla eða í fiskveðiár víða á landinu.

„Álagið á fyrirtækið er mjög mikið núna og við höfum bætt við okkur erlendu starfsfólki, flugmönnum og leigt fleiri þyrlur erlendis frá.“

Birgir merkir ekki sérstaklega meiri eftirspurn eftir ferðum fyrir fullorðna með börn undir 12 ára aldri sem nú er bannað að ganga að gosinu. Hann segir það jafnt útlendinga og Íslendinga sem nýti sér þjónustuna.

Sumir hafa kvartað undan hávaða frá flugförum, -þyrlum, dónum og flugvélum á gossvæðinu og fólki finnst hljóðin hafa leiðinleg áhrif á upplifunina þar. Þá hafa íbúar sem búa nálægt Reykjavíkurflugvelli einnig kvartað undan hávaðanum. 

„Við náttúrulega skiljum það. Við byrjum ekki fyrr en klukkan 8 á morgnana og hættum um klukkan tíu á kvöldin. Þetta bara fylgir þessu. Það er því miður ekki hægt að gera þessar þyrlur hljóðlátar en sumar gefa frá sér minni hávaða en aðrar en þetta er allt í stöðugri þróun og við reynum að vanda okkur við að fljúga ekki lágt yfir íbúabyggð.“

Hann segir þá sem fljúga drónum yfir gosstöðvunum  misduglega að fara eftir settum reglum og margir þeirra ættu að fara mun varlegar.

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV