Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Treystum því að ríkisvaldið komi okkur til aðstoðar“

Unnið er að því að finna leiðir til þess að létta á álagi á björgunarsveitum vegna eldgossins í Meradölum, að sögn bæjarstjóra Grindavíkur. Hins vegar sé ekki til staðar nægur mannafli til þess að sinna öllum þeim fjölda sem leggur leið sína að gosstöðvunum daglega. Umfangsmiklar framkvæmdir standa yfir við gönguleiðirnar til þess að tryggja öryggi göngufólks. 

Þurfa að hugsa út fyrir boxið

Fjármagn var í morgun tryggt til þess að ráða í tvö stöðugildi landvarða í Meradölum, með það að markmiði að létta undir með björgunarsveitarfólki. Formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar gaf hins vegar lítið fyrir þessi áform í hádegisfréttum í dag, enda séu tvö stöðugildi aðeins dropi í hafið. Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir að allt hjálpi til en að vissulega þurfi að gera betur.  

„Menn eru svona að reyna að hugsa svolítið út fyrir boxið og finna leiðir til þess að létta sérstaklega á björgunarsveitum. Ef það eru kannski á átta þúsund manns sem koma þarna á einum sólarhring að þá er þetta mikið verkefni og kallar á mannafla sem er ekki til staðar núna og ekki hægt að leggja upp með næstu mánuðina á úthaldi björgunarsveitarmanna,” segir Fannar. 

Þá sé til skoðunar að ráða einkaaðila sem muni til dæmis sjá um umferðarstýringu eða öryggisgæslu á svæðinu.  

  „Það getur líka vel verið að Grindavíkurbær komi að þessu, til dæmis með aðkomu slökkviliðsins okkar. Það er svona eitt af því sem litið hefur verið til, og hugsanlega hvort einkaaðilar sjái um öryggisgæslu eða eitthvað slíkt. Það er ekki búið að negla neitt niður í þessu sambandi en eitt af því sem þarf að gera áður en að þessu kemur er að fjármagna þetta og vita hvaðan greiðslurnar kæmu. En menn eru með opinn huga hvaða leiðir væru færar og hvað er raunhæft að gera.” 

Landverðir á svæðinu sé jákvætt skref en að gera þurfi meira. 
 
„Við viljum koma því á framfæri við ríkisvaldið að það þurfi að gera betur, bæði með fjárveitingum og annarri aðkomu og aðstoð. Og við væntum þess að fá góða niðurstöðu úr þeim viðbrögðum. Miðað við þau viðbrögð sem við höfum fengið þá treystum við því að ríkisvaldið komi okkur til aðstoðar,” segir Fannar. 

Gönguleiðin bætt, ljósavædd og fleiri skilti sett upp

Grindavíkurbær hefur hafið umfangsmiklar framkvæmdir í Meradölum, að beiðni almannavarna.

„Við höfum núna í um viku rekið þetta verkefni til þess að bæta aðgengi á svæðinu og tryggja öryggi ferðamanna. Það snýr fyrst og fremst að því að koma þessari gönguleið í betra horf. Þetta er gríðarlega erfið leið, mjög grýtt og torfarin þannig að stærsti þunginn í þessu verkefni er akkúrat það að gera leiðina aðgengilega,” segir Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu.  

Gönguleiðin verði brátt betri, þó ekki sé hægt að hefla hana vegna stórgrýtis. „Það hefur ekkert upp á sig að hefla þetta en það verður að sækja efni og forfæra af beltavögnum á leiðina. Að hluta til notum við efni af svæðinu þar sem varnargarðurinn var reistur í fyrra.“

Þá er unnið að því að ljósavæða gönguleiðina með blikkljósum og koma upp fleiri upplýsingaskiltum.  

„Það eru leiðamerkingar og vegalengdamerkingar, þannig að fólk skilji í raun hvað í þetta þýðir í vegalengd. Þegar þú ert búinn að labba í einn og hálfan tíma og ert ekki farinn að sjá þetta enn þá, að þá er ágætt að sjá þetta skilti og átta sig á hversu erfitt þetta er.”  

sunnaks's picture
Sunna Karen Sigurþórsdóttir
Fréttastofa RÚV