Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Staðan í orkumálum flýti grænni umbreytingu

15.08.2022 - 16:27
Mynd með færslu
 Mynd: Norska stjórnarráðið - RÚV
Staða orkumála í heiminum verður til þess að flýta orkuskiptum frekar en að það komi bakslag í þau, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það vera sameiginlega sýn Norðurlandanna.

Varnarmál, ástand hafsins og grænar breytingar eru meðal þess sem forsætisráðherrar Norðurlandanna ræddu á fundum sínum í dag í Ósló. Viðræður norrænu forsætisráðherranna snúast um öryggi í Evrópu, sambandið við Rússland og ástandið í Úkraínu og þær breytingar sem verða með inngöngu Svíþjóðar og Finnlands í Atlantshafsbandalagið. Katrín Jakobsdóttir segir það verulega breytingu í varnarmálum að Finnar og Svíar hafi sótt um inngöngu í Atlantshafsbandalagið.

„Þau bíða auðvitað þess að sú umsókn verði fullgild af öllum aðildarþjóðum. En það sem umræður dagsins í dag snerust um eru í raun og veru um hvað við Norðurlöndin getum gert meira í okkar samstarfi á þessu sviði,“

segir Katrín Jakobsdóttir.

Það sem verið sé að horfa til séu breytingarnar þegar Svíþjóð og Finnland verða komin í NATO og hvað þær muni þýða fyrir Norðurlöndin í heild og hvernig hægt verði að nýta það til að styrkja samstarf þjóðanna enn frekar. Orkumál og málefni hafsins voru einnig til umræðu og segir Katrín orkumálin í miðpunkti, vegna innrásar Rússa í Úkraínu og hærra orkuverðs í framhaldinu.

„Það er sameiginleg sýn Norðurlandanna að þessi staða verði til þess að við flýtum grænni umbreytingu frekar en að það verði bakslag í þeim málum og það var rætt mikið um það hvað við getum gert í því. Og það sem við Íslendingar vorum sérstaklega að ræða í þeim efnum er kolefnisbinding í tengslum við framleiðslu á grænni orku, þar erum við auðvitað með mjög góð dæmi.“
 

Að loknum fundi forsætisráðherranna funduðu þeir með Olaf Scholz kanslara Þýskalands þar sem öryggismál voru meðal annars rædd.